Fara í efni

Framkvæmdir við stækkun Seyðisfjarðarskóla – hönnun kynnt á íbúafundi

27.10.2025 Fréttir Seyðisfjörður

Hönnun vegna stækkunar Seyðisfjarðarskóla er nú komin vel á veg og liggja fyrir uppfærðar teikningar og kynningargögn sem sýna framtíðarskipulag skólans og tengingu hans við íþróttahúsið og menningar- og félagsheimilið Herðubreið.

Stækkunin er liður í því að skapa nútímalegt og öruggt námsumhverfi fyrir börn og ungmenni á Seyðisfirði og mun bæta verulega aðbúnað nemenda og starfsfólks, sem hingað til hefur notast við eldra húsnæði sem ekki uppfyllir nútímakröfur um öryggi, aðgengi eða vinnuaðstöðu.

Hönnunin verður kynnt á íbúafundi í Herðubreið miðvikudaginn 29. október kl. 17:00. Þar verður hægt að fá svör við spurningum sem fundargestir kunna að hafa, svo sem um aðgengismál og fleira. 

Nýtt skipulag og bætt aðstaða

Tengibygging – hjarta nýju heildarinnar

Í tengibyggingunni verður komið fyrir eldhúsi fyrir bæði skólann og leikskólann, björtum matsal, einni heimastofu, fundarsal, salernum og tónlistarstofu með þremur kennsluherbergjum.

Á efri hæð tengibyggingarinnar verður aukasmiðja, ásamt loftræstibúnaði fyrir nýja sem eldri byggingu, sem tryggir nútímalegt loftflæði og betra inniloft fyrir nemendur og starfsfólk.

Tenging við Herðubreið mun auka samfellu milli bygginganna og styðja við samnýtingu rýma fyrir kennslu og viðburði, en íþróttaaðstaða og hátíðarsalur Herðubreiðar nýtast nú þegar samfélaginu öllu.

Nýtt anddyri og samtenging við nýbyggingu

Milli eldri byggingar og nýju suðausturálmunnar verður reist nýtt anddyri, sem verður sameiginlegur inngangur og tengipunktur skólans. Það mun auðvelda aðkomu, bæta flæði og styrkja heildarsamræmi bygginganna.

Suðausturálma – ný kennara- og kennsluaðstaða

Í suðausturálmunni verður kennaraálma með skrifstofum, vinnuaðstöðu og kaffiaðstöðu fyrir starfsfólk. Þar verða einnig tvær heimastofur, skólasel og hvíldar- og fjölnotarými sem nýtast sveigjanlega fyrir mismunandi hópa. Þessi hluti skólans verður bjartur og rúmgóður, með áherslu á gott vinnuumhverfi og bætt aðgengi fyrir alla.

Tímalína og stærðir

Áætlað er að hönnun og útboðsgögn verði fullgerð í maí 2026, með það að markmiði að framkvæmdir geti hafist í júlí sama ár.

Eldri hluti skólans, svokallaður rauði skóli, er um 400 m² en mun að lokinni stækkun ná tæplega 1.525 m², að meðtaldri smíðastofu. Áætluð stærð á að anna þörfum 90 nemenda og kennara í samræmi við þann fjölda. Fjöldi nemenda í ár er um 60 og ætti stækkunin því að ná utan um mögulega fjölgun næstu ára.

Framkvæmdir við stækkun Seyðisfjarðarskóla – hönnun kynnt á íbúafundi
Getum við bætt efni þessarar síðu?