Fara í efni

Frekari rýmingar á Seyðisfirði

20.01.2025 Fréttir Seyðisfjörður

Mikið hefur snjóað á Austfjörðum í gær og nótt, sérstaklega á Seyðisfirði. Síðla nætur dró úr ofankomu en gert er ráð fyrir að hún aukist eftir hádegi og haldi áfram fram yfir miðnætti. Ákveðið hefur verið að rýma tvö hús í Bakkahverfi á Seyðisfirði norðan Fjarðarár til viðbótar við rýmingu húsa undir Strandartindi frá í gær. Ofan Bakkahverfis er unnið að byggingu leiðigarðs sem nefndur hefur verið Bakkagarður. Enn vantar upp á að efstu 200 metrar garðsins séu komnir í fulla hæð og eru húsin sem rýmd verða undir þessum hluta hans. Veðurspá gerir ráð fyrir að veðrinu sloti nokkru eftir miðnætti eða seint í kvöld. Gera má ráð fyrir að dragi úr snjóflóðahættu á Austfjörðum í framhaldi af því.

Björgunarsveitarmenn eru í þessum töluðu orðum að ganga í þau tvö fjölbýlishús sem verða rýmd, að Gilsbakka 1 og Hamrabakka 8, 10 og 12 og veita íbúum leiðbeiningar varðandi atriði sem gott er að hafa í huga við rýmingu. Fjöldahjálparstöð er opin í Herðubreið. Rýming tekur gildi klukkan 14:00

Frekari rýmingar á Seyðisfirði
Getum við bætt efni þessarar síðu?