Fara í efni

Fulltrúar Múlaþings á fundum með ráðherrum ríkisstjórnarinnar

31.03.2025 Fréttir

Síðan ný ríkisstjórn tók við völdum hafa fulltrúar Múlaþings fundað með þremur ráðherrum ríkisstjórnarinnar til að tryggja að ríkisstjórnin sé upplýst um þau mál sem eru íbúum sveitarfélagsins mikilvæg.

Fyrst hittu sveitarstjóri, forseti sveitarstjórnar og formaður byggðaráðs nýjan samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra Eyjólf Ármannsson. Þar voru samgöngumálin í brennidepli og minnt á mikilvægi samgöngubóta innan sveitarfélagsins líkt og gefin voru vilyrði fyrir í aðdraganda sameiningar Múlaþings. Þá var einnig rætt um þá staðreynd að almenningssamgöngur innan sveitarfélagsins hafi verið lagðar af eftir sameiningu með þeim rökum að um innanbæjarakstur væri nú að ræða en slík ákvörðun skýtur skökku við þegar verið er að hvetja sveitarfélög til sameininga.

Á fundi sömu fulltrúa Múlaþings með Daða Má Kristóferssyni fjármálaráðherra var lögð áhersla á að innviðauppbygging á Austurlandi myndi endurspeglast í nýrri fjármálaáætlun enda ljóst að forsenda aukinna atvinnutækifæra og vaxtar samfélagsins á Austurlandi eru samgöngubætur. Einnig var rætt mikilvægi þess að tryggt verði fjármagn í ofanflóðavarnir við Seyðisfjörð bæði hvað varðar aur- og snjóflóð á íbúða- og atvinnuhúsnæði.

Nú síðast hittu síðan sveitarstjóri, forseti sveitarstjórnar og formaður byggðaráðs auk fulltrúa minnihluta Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra til að fara yfir sömu mál og tryggja að sameiginlegur skilningur sé hjá ríkisstjórninni á forgangsmálum Múlaþings.

Fundurinn var góður líkt og aðrir fundir með ráðherrum og sýndu allir ráðherrar málflutningi fulltrúa Múlaþings mikinn skilning og vonandi munu þessi samtöl skila uppbyggingu í sveitarfélaginu í náinni framtíð.

Fulltrúar Múlaþings á fundum með ráðherrum ríkisstjórnarinnar
Getum við bætt efni þessarar síðu?