Fara í efni

Fulltrúar Múlaþings funduðu með þingmönnum

19.12.2025 Fréttir

Oddvitar í sveitarstjórn Múlaþings fóru ásamt sveitarstjóra til Reykjavíkur þann 9. desember til að funda með þingmönnum kjördæmisins um tillögu að nýrri samgönguáætlun. Einnig var fundað með hluta umhverfis- og samgöngunefndar og með hluta af þingflokki Viðreisnar.

Umræðuefnið voru vonbrigði fulltrúanna með drög að nýrri samgönguáætlun þar sem framkvæmdir á Austurlandi eru settar á ís þrátt fyrir að landshlutinn standi undir mikilli verðmætasköpun og skatttekjum fyrir ríkið. Það er því ljóst að hlutur Austurlands skilar sér ekki aftur til baka í formi uppbyggingar á svæðinu.

Mestu vonbrigðin felast í því að Fjarðarheiðargöngum hafi verið frestað þegar þau eru tilbúin til útboðs, að ekki verið ráðist í endurgerð á Suðurfjarðarvegi og Öxi og að langt sé í nýja Lagarfljótsbrú. Þá eru veruleg vonbrigði að ríkið ætli að lækka framlag sitt til hafnarframkvæmda hjá Múlaþingi úr 60% í 40% en það setur fjárfestingaráætlun hafnanna í uppnám.

Þá var minnt á að bættar samgöngur milli byggðarkjarna voru ein af lykilforsendum sameiningar Múlaþings og það grefur undan trausti á stjórnvöld ef ekki er staðið við gefin loforð.

Meðfylgjandi er minnisblað sem var tekið saman fyrir fundinn og hefur verið sent á þingmenn kjördæmisins auk tengla á fréttir þar sem rætt var við fulltrúa Múlaþings daginn sem þeir sóttu þingmenn heim á Alþingi. Önnur fréttin er viðtal við Dagmar Ýr sveitarstjóra Múlaþings á Rúv þar sem hún lýsir því yfir að Austfirðingar muni ekki sætta sig við að vera teknir úr forgangi. Hin fréttin er viðtal á visi.is við oddvita sveitarstjórnar Múlaþings þar sem þeir sögðust meðal annars ætla að berjast til síðasta blóðdropa.

Einu göngin sem fulltrúar Múlaþings fundu á Austurvelli
Einu göngin sem fulltrúar Múlaþings fundu á Austurvelli
Getum við bætt efni þessarar síðu?