Sveitarstjóri, forseti sveitarstjórnar og byggðaráð áttu fund með forsætisráðherra um málefni Seyðisfjarðar í gær, fimmtudaginn 27. nóvember. Tilefni fundarins var atvinnuástandið í bæjarfélaginu í kjölfar uppsagna og lokunar Síldarvinnslunnar á sinni starfsemi auk þeirrar óvissu sem nú er uppi vegna nýrrar samgönguáætlunar. Þá var einnig rætt við forsætisráðherra um óvissu vegna atvinnuhúsnæðis á ofanflóðahættusvæði.
Dagmar Ýr Stefánsdóttir sveitarstjóri hitti Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra í stjórnarráðinu í Reykjavík en aðrir fundarmenn tóku þátt í fjarfundi. „Þetta var góður og mikilvægur fundur fyrir okkur og gott að heyra hvað forsætisráðherra er viljug að leggja okkur lið í uppbyggingu atvinnulífs á Seyðisfirði,“ sagði Dagmar Ýr eftir fundinn.
Aftur á móti var fátt um svör hvað nýja samgönguáætlun varðar en þar bar forsætisráðherra því við að ekkert yrði gefið upp fyrr en áætlunin kæmi frá ríkisstjórninni til þingsins, svo íbúar Múlaþings þurfa að bíða enn um sinn eftir því að fá staðfestingu á því hvort Fjarðarheiðargöng haldi sæti sínu sem næstu jarðgöng sem grafin verða á Íslandi. „Það er alveg ljóst að göngin undir Fjarðarheiði hafa gífurleg áhrif á öll framtíðaráform um uppbyggingu á Seyðisfirði og við ætlum bara að vera bjartsýn um að fyrri áætlanir muni halda, enda eru þessi göng þau einu hér á landi sem eru tilbúin til útboðs,“ segir Dagmar.
Nokkuð var rætt um þá óvissu sem ríkir varðandi atvinnuhúsnæði á Seyðisfirði en allt húsnæði sem Síldarvinnslan á er undir Strandartindi og ýmist á hættusvæði C eða B sem takmarkar nýtingu á húsnæðinu verulega. Ofanflóðasjóður hefur ekki verið að kaupa upp atvinnuhúsnæði á hættusvæði og ekki eru komin nein áform um varnir á þessu svæði. Forsætisráðherra hvatti Múlaþing til að taka samtalið upp við ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála sem fer með málefni ofanflóða svo haldið verður áfram með það samtal.