Fara í efni

Fyrri úthlutun menningarstyrkja Múlaþings 2025

06.02.2025 Fréttir

Byggðaráð Múlaþings úthlutaði nýverið rúmlega 8,1 milljón króna í styrki til fjölbreyttra menningarverkefna í sveitarfélaginu. Um er að ræða fyrri úthlutun ársins en seinni úthlutun verður auglýst í ágúst.

Að þessu sinni bárust 40 umsóknir frá 35 aðilum. Samtals námu styrkumsóknir 19,9 milljónum króna og heildarkostnaður verkefna var rúmlega 139 milljónir.

Fjöldi umsókna og fjölbreytileiki þeirra bera vitni um þá miklu grósku sem er í menningarstarfi í Múlaþingi. Meðal verkefna sem hlutu styrki að þessu sinni voru myndlistarsýningar, leikrit, fjölbreyttir tónleikar, smiðjur og námskeið, útvarpsleikrit, menningarhátíðir og fleira.

Umsækjendum öllum er hér með þakkað fyrir umsóknirnar og styrkhöfum óskað velgengni með þeirra verkefni sem munu án efa auðga samfélagið í Múlaþingi á komandi ári.

Eftirtalin verkefni hlutu styrk að þessu sinni:

Andri Björgvinsson: Sumardagskrá í Glettu
Sumardagskrá Glettu, í Hafnarhúsinu á Borgarfirði eystri, stendur yfir frá júní til ágúst. Á dagskrá verða fjölbreyttar sýningar og koma sýnendur víða að.
Úthlutun: 300.000 kr.

Apolline Alice Penelope Barra: Fiskisúpa-Ljósmyndasósa
Fiskisúpa-Ljósmyndasósa er röð viðburða sem fara fram víða í Múlaþingi. Gestum og gangandi er boðið að hitta þekkta og færa ljósmyndara yfir kvöldverði og eiga við þá óformlegt spjall um listformið. Markmiðið er að færa nútímaljósmyndum nær samfélaginu á Austurlandi.
Úthlutun: 380.000 kr.

Austuróp: Couples Therapy
Kammeróperan Kornið er frumsamin ópera fyrir þrjá söngvara og hljóðfæraleikara, eftir Wes Stephens, tónskáld búsett á Egilsstöðum. Persónurnar eru staddar í tíma hjá hjónabandsráðgjafa, þar gengur á ýmsu og endirinn er óvæntur.
Úthlutun: 240.000 kr.

Björn Hafþór Guðmundsson: Við skulum ekki hafa hátt, útgáfa og tónleikar
Útgáfa hljómdisks með lögum eftir umsækjanda og með þátttöku margra listamanna sem búa á Austurlandi eða tengjast svæðinu. Í tengslum við útgáfuna verða haldnir tvennir tónleikar, annars vegar á Djúpavogi og hins vegar í Fjarðabyggð. Tilgangur verkefnis er að efla tónlistar- og menningarlíf.
Úthlutun: 200.000 kr.

Bláa kirkjan: Sumartónleikaröð Bláu kirkjunnar 2024
Sumartónleikaröðin Bláa kirkjan var stofnsett árið 1998 og hefur því verið haldin í 26 ár. Um er að ræða tónleika sem fara fram í Seyðisfjarðarkirkju á miðvikudagskvöldum í júlí og ágúst. Lögð er áhersla á að bjóða upp á fjölbreytta tónleika með klassískri tónlist, djass, blús, þjóðlagatónlist og léttari tónlist.
Úthlutun: 350.000 kr.

Daria Andronachi: Connected by food and Connected by food-Christmas mood
Matur er leið til að kynnast og Connected by food er viðburður sem tengir íbúa á svæðinu saman í gegnum mat. Á viðburðinum gefst tækifæri til að kynnast matarmenningu annarra landa um leið og hann er vettvangur fyrir erlenda og innlenda íbúa til að kynnast, deila reynslu og mynda tengsl.
Úthlutun: 400.000 kr.

Elín Elísabet Einarsdóttir: Bergið er rautt að innan (vinnutitill)
Málverka- og ljóðasýning í myndlistarrýminu Glettu í Hafnarhúsinu á Borgarfirði eystri. Málverkin verða máluð utandyra á Borgarfirði í aðdraganda sýningarinnar og myndefnið verður landslag og andlit staðarins. Þetta er þriðja sýningin í röð Elínar Elísabetar í Glettu en hinar tvær vöktu mikla athygli.
Úthlutun: 100.000 kr.

Félag ljóðaunnenda á Héraði: Útgáfa ljóðabóka árið 2025
Félag ljóðaunnenda á Austurlandi áformar að gefa út tvær ljóðabækur árið 2025. Bók ársins í flokknum Austfirsk ljóðskáld verður að þessu sinni úrval úr ljóðum Hreins Halldórssonar á Egilsstöðum en auk hennar gefur félagið út ljóð ungrar og efnilegrar skáldkonu, Ásu Þorsteinsdóttur, sem einnig býr á Egilsstöðum.
Úthlutun: 90.000 kr.

Hlín Pétursdóttir Behrens: Tónlistarstundir
Tónleikaröð þar sem sviðsljósinu er beint að tveimur frábærum ólíkum tónleikastöðum á Héraði, Egilsstaðakirkju og Vallaneskirkju. Boðið verður upp á vandaða dagskrá með fjölbreytni og metnað að leiðarljósi sem auðgar tónlistar- og mannlíf á svæðinu.
Úthlutun: 350.000 kr.

Listahátíðin List í ljósi: List í ljósi 10 ára
Listahátíðin List í ljósi fagnar 10 ára afmæli í ár. Í tilefni af því verður listamönnum sem áður hafa sýnt á hátíðinni boðið að heimsækja Seyðisfjörð að nýju og taka þátt í hátíðinni með metnaðarfullum listaverkum og innsetningum.
Úthlutun: 500.000 kr.

Kvennakórinn Héraðsdætur: Tónleikahald
Kvennakórinn Héraðsdætur verður starfræktur frá september 2024 til maí 2025, líkt og undanfarin ár. Kórinn heldur árlega jóla- og vortónleika auk þess að syngja fyrir íbúa Dyngju tvisvar yfir veturinn.
Úthlutun: 150.000 kr.

Lunga-skólinn ses: Sýning á Sluice Art Expo á Seyðisfirði 2025
Sýning LungA skólans sem verður miðpunktur Sluice Art Expo sýningarinnar sem fram fer á Seyðisfirði í maí. Sluice eru alþjóðleg listamannarekin samtök sem áður hafa staðið fyrir sambærilegum sýningum í New Your, London, Berlín, Lissabon og Óðinsvéum.

Menningarfélag Borgarfjarðar eystri: Bræðsludagur fjölskyldunnar
Bræðsludagur fjölskyldunnar er fjölskyldudagskrá sem fer fram á Bræðsludegi, laugardaginn 26. júlí. Dagskráin samanstendur af viðburðum sem hafa fest sig í sessi á þessum degi s.s. druslugöngu, útimarkaði og fleiru en við bætast fjölskylduvæn skemmtiatriði á sviði og smiðjur þar sem fjölskyldan vinnur saman að skapandi verkefnum.
Úthlutun: 250.000 kr.

Minjasafn Austurlands: Landnámskonan – framhald
Á sýningunni Landnámskonan í Minjasafni Austurlands eru m.a. til sýnis forngripir sem fundist hafa í fornleifauppgreftrinum í Firði í Seyðisfirði og gripir sem tilheyrðu Fjallkonunni svokölluðu sem fannst á Vestdalsheiði árið 2004. Gripirnir eru allajafna varðveittir á Þjóðminjasafni Íslands og hafa ekki áður verið sýndir almenningi. Sýningin hefur staðið yfir í safninu frá því í júní 2024 en ákveðið hefur verið að framlengja sýningartíma hennar til september 2025.
Úthlutun: 300.000 kr.

Monika Frycová: KIOSk 108: Sumardagskrá
Sumarið 2025 mun KIOSK 108, verkefni helgað list og menningu á Seyðisfirði, lifna við með kraftmikilli listsýningu, tónleikum og sjálfstæðum gjörningum þar sem íslenskt ​​og erlent lista- og tónlistarfólk mun koma fram.
Úthlutun: 250.000 kr.

Móðir jörð ehf: Skógargleðin í Vallanesi 2025
Skógargleðin, árlegur viðburður í Vallanesi. Matur og menning.
Úthlutun: 300.000 kr.

Ra Tack: Residensía fyrir LGBTQIA+ listamenn og aðgerðarsinna
Residensía á Seyðisfirði fyrir LGBTQIA+ listamenn og aðgerðarsinna með það að markmiði að skapa tengsl milli hins alþjóðlega og staðbundna LGBTQ+ samfélags og skapa öruggt rými fyrir LGBTQ+ fólk. Í residensíunni gefst þátttakendum kostur á að læra hvort af öðru og vinna að fjölbreyttum menningarverkefnum svo sem sýningum, gjörningum og vinnustofum og auðga þannig menningu Austurlands fyrir alla.
Úthlutun: 400.000 kr.

Sinfóníuhljómsveit Austurlands: Vortónleikar-frumflutningur
Sinfóníuhljómsveit Austurlands heldur tónleika þann 6. apríl 2025 þar sem hún frumflytur nýtt verk eftir Ingibjörgu Ýri Skarphéðinsdóttur. Einnig leikur Joanna Natalia Szczelina, framhaldsnemi í píanóleik við Tónlistarskólann á Egilsstöðum, fyrsta kafla úr Píanókonsert nr. 11 í D-dúr eftir Joseph Haydn. Að lokum flytur hljómsveitin hina stórfenglegu fjórðu sinfóníu Johannes Brahms, sem lætur engin ósnortin.
Úthlutun: 400.000 kr.

Skaftfell: Miðsumarhátíð á Seyðisfirði
Miðsumarshátíð á Seyðisfirði er götuhátíð haldin í tilefni af sumarsólstöðum. Markmið hennar er kynna ólíkar hefðir og menningarheima, stuðla að inngildingu og skapa vettvang fyrir nærsamfélagið til að koma saman og skemmta sér í líflegu og skemmtilegu umhverfi á lengsta degi ársins. Hátíðin fer fram fyrir framan Skaftfell og er öllum opin. Úthlutun: 200.000 kr.

Skaftfell: Prentsmiðjur 2025 í Prentverki Seyðisfjarðar.
Á árinu 2025 mun Skaftfell bjóða upp á fjölbreyttar prentsmiðjur í Prentverki Seyðisfjarðar þar sem fyrir er einstök aðstaða fyrir slíka vinnu. Boðið verður upp á opnar smiðjur fyrir almenning, prentsmiðjur fyrir lengra kona og smiðjur fyrir grunn-, framhalds og háskóla.
Úthlutun: 450.000 kr.

Skógræktarfélag Djúpavogs og Ferðafélag Djúpavogs: Leitin að fjársjóði Páskahérans í Hálsaskógi.
Páskahérinn, Ferðafélag Djúpavogs og Skógræktarfélag Djúpavogs efna til fjársjóðsleitar í Hálsaskógi í dymbilviku. Gengið verður um söguslóðir, náttúran rannsökuð og horft eftir eggjum.
Úthlutun: 90.000 kr.

Sláturhúsið menningarmiðstöð: Vinir Egils Skalla
Vinir Egils Skalla (vinnuheiti) er fjölskyldusöngleikur og fantasía, sem sækir efni að hluta í Egils sögu Skallagrímssonar, en fjallar þó aðallega um tvenna tíma sem mætast og rekast á, nútíma okkar og landnámsöldina. Leikritið er spennusaga um tvo krakka sem setja óvart Egils sögu Skallagrímssonar á hvolf og snarbreyta sögunni.
Úthlutun: 450.000 kr.

Sláturhúsið menningarmiðstöð: Vatn sefur aldrei - Sumarsýning Sláturhússins 2025
Hreyfing í vatni er samsýning innlendra og alþjóðlegra listamanna. Sýningin býður upp á fljótandi samræður, ólínulegar frásagnir og hugleiðingar um hlutverk vatns í mótun Íslands og heimsins í heild, bæði líkamlega og myndræna. Alls taka 8 listamenn þátt en það eru meðal annars Ráðhildur Ingadóttir, Margrét Blöndal, Eygló Harðardóttir, Karin Sander og Silvia Bächli. Sýningarstjóri er Savannah Gorton.
Úthlutun: 400.000 kr.

Ströndin Ateliler ehf: Ljósmyndadagar á Seyðisfirði 2025
Þema ljósmyndadaga á Seyðisfirði 2025 er hreyfð mynd og þar verður lögð áhersla á listina að mynda hreyfingar. Boðið verður upp á fjölbreytt úrval vinnustofa undir stjórn virtra alþjóðlegra ljósmyndara og kvikmyndagerðarmanna. Auk þeirra verður boðið upp á kvikmyndasýningar, lifandi sýningar, listamannaspjall og fleira.
Úthlutun: 450.000 kr.

Tækniminjasafn Austurlands: Upplýsingaskilti - fallbyssa og slippur
Gerð og uppsetning upplýsingaskiltis sem staðsett verður við Hafnargötu á Seyðisfirði andspænis Vélsmiðju Seyðisfjarðar og rétt ofan við hina nýju Angró byggingu. Á skiltinu verða annars vegar upplýsingar um fallbyssurnar úr El Grillo sem nýverið var fundinn þar nýr staður og hins vegar um Slippinn sem enn stendur þar að hluta, þar sem fjöldi skipa var smíðaður og lagfærður um áratuga skeið.
Úthlutun: 150.000 kr.

Þórhildur Tinna Sigurðardóttir: Óþekkt alúð - list sem heilandi afl
Myndlistarsýningin Óþekkt alúð tekst á við sammannlega tilveru okkar. Hún er aðgengileg en á sama tíma framúrstefnuleg, litrík og glaðleg en tekst á sama tíma á við erfið málefni. Sýningin, sem samanstendur af verkum eftir 14 konur og kvár, var sett upp í Hafnarborg í Hafnarfirði síðastliðið haust en er nú sett upp í Sláturhúsinu menningarmiðstöð.
Úthlutun: 300.000 kr.

Þórir Freyr Höskuldsson: Útvarpsleikrit unnið á Seyðisfirði
Vísindaskáldsaga í fjögurra þátta útvarpsleikritsformi, tekin upp og unnin með íbúum Seyðisfjarðar.
Úthlutun: 250.000 kr.

Frá sýningunni Óþekkt alúð í Sláturhúsinu
Frá sýningunni Óþekkt alúð í Sláturhúsinu
Getum við bætt efni þessarar síðu?