Í Stólpa á Egilsstöðum er ýmislegt brallað og sinnir starfsfólkið þar ólíkum verkefnum, allt eftir áhuga og færni.
Einn starfsmaður þar sem lætur sér aldrei verk úr hendi falla er afar handlaginn og hefur mikinn áhuga á rafmagnstækjum og vélum. Aðspurður hvað honum þyki skemmtilegast að gera við segir hann ,,Mótorar finnast mér yndislegir, mechanismar ennþá meira. Mér voru færð tvö stjörnukerfi úr Egilsstaðaskóla sem voru gíruð, þannig að allar pláneturnar voru á mismunandi gírum. Það var rosalega skemmtilegt verkefni. Ég tók tvö svoleiðis sem voru biluð og náði að sameina í eitt sem virkar. Verst finnst mér að gera við hluti þar sem vatn og rafmagn er á sama stað, annars skiptir það mig engu máli hvað ég fæ í hendurnar“
Hann unir sér því best að gera við slík tæki og er virkilega fær í því, sérstaklega þegar kemur að því að gera við hrærivélar en hann segir sjálfur ,,Ég tek við símum, tölvum, hrærivélum, hvað sem er svo lengi sem ég hafi pláss til að vinna með það, þá get ég gert við það. Ég er með glæsilega aðstöðu hér og það er toppurinn að hægt sé að nýta mig.“
Við spjall kom fljótt í ljós að áhuginn kviknaði snemma ,,Þetta byrjaði í bílskúrnum hjá afa mínum, þetta er búið að vera brask síðan ég var lítill. Hann var alltaf að vinna í bílnum hjá sér og mig vantaði alltaf svona hliðarverkefni þannig að það fyrsta sem hann lét mig í var að fikta í útvörpum. Síðan eignaðist amma mín borðtölvu og ég fékk þvílíkar skammir fyrir að skemma þær í fyrsta skipti en mér tókst að skrúfa þær aftur saman. Þar byrjar áhuginn. En svo byrja ég í þessu svona 13 eða 14 ára gamall fyrir alvöru og vann svo á tímabili í Fjölsmiðjunni fyrir norðan, þar var ég í tölvudeildinni. Svo er þetta líka áhugamálið þegar ég er heima.“
Inntur eftir því hvaðan hann hefur verið að fá verkefni segir hann þau koma víða að eins og til dæmis ,,frá HSA, skólunum, skrifstofum Múlaþings, almenningi og bara hitt og þetta sem dettur inn.“
Nú er verkefnastaðan þannig að hann getur vel við sig bætt verkefnum og eru íbúar því beðnir að að vera í sambandi við Kristínu Á. Ásgeirsdóttir deildastjóra í Stólpa ef þeir luma á einhverju sem þarf að dytta að. Þá er einnig velkomið að koma við með tæki, tölvur eða vélbúnað beint í Stólpa.
Með því að nýta slíka þjónustu er hægt að lengja líftíma tækjanna og þannig spara pening og um leið vera umhverfisvænn. Þá eru varahlutir endurnýttir eins og hægt er við vinnuna og er hann með góðan lager af dóti sem hægt er að nota við hinar ýmsu viðgerðir.