Þann 17. júlí síðastliðinn hóf sveitarfélagið gjaldtöku á bílastæðum við Hafnarhólma á Borgarfirði eystri en lundavarpið þar dregur að þúsundir ferðamanna á ári hverju.
Í Hafnarhólma við Borgarfjarðarhöfn er eitt aðgengilegasta lundavarp landsins en lundinn sest upp í hólmanum um miðjan apríl og dvelur þar fram í miðjan ágúst. Víðast hvar hefur lunda verið að fækka í kringum landið en í Hafnarhólma hefur honum fjölgað. Það sama má segja um mennska gesti hólmans en samkvæmt Mælaborði ferðaþjónustunnar fóru ríflega 65.000 gestir upp í hólmann allt árið 2024, þar af tæplega 6.000 gestir úr leiðangursskipum sem áttu viðkomu í Borgarfjarðarhöfn.
Uppbygging í tengslum við ferðamennsku við hólmann og höfnina hófst fyrir aldamót þegar stigi var byggður upp í hólmann. Var það fyrir tilstilli Magnúsar Þorsteinssonar heitins sveitarstjóra og ábúanda í Höfn sem fór að veita því eftirtekt að erlendir ferðamenn, sem þá þegar voru farnir að leggja leið sína til Borgarfjarðar, sýndu nágrönnum hans, lundunum, mikla athygli. Á þeim árum sem síðan eru liðin hefur jafnt og þétt bæst við innviði og þjónustu í takti við fjölgun gesta. Má þar nefna upplýsingaskilti og fuglaskoðunarhús uppi í hólmanum, gott bílastæði ofan við höfnina og nú síðast Hafnarhúsið sem hýsir kaffihús, sýningarrými og almenningssalerni.
Tekjurnar af gjaldtökunni fara til uppbyggingar og viðhalds áfangastaðarins og verndunar fuglalífsins í Hafnarhólma en hann er í 70% eigu Fuglaverndar og 30% eigu sveitarfélagsins Múlaþings. Sveitarfélagið stendur straum af allri uppbyggingu og viðhaldi mannvirkja í og við hólmann en Fuglavernd sér um fræðslu, vöktun og rannsóknir. Gengið er út frá því að gjaldtakan sé tímabundin ár hvert, það er á þeim tíma sem lundinn er í hólmanum og mest ásókn gesta er á svæðið. Gjaldskráin er sett upp með tilliti til sambærilegra náttúruperla í nágrenninu og er talin hófleg. Sveitarfélagið samdi við fyrirtækið Checkit um uppsetningu myndavélakerfis og greiðsluvéla og utanumhald innheimtunnar.
Verðskrá (verð gildir í 5 klst.):
- Bifhjól: 400 kr.
- Fólksbifreið, 5 manna eða færri: 1.000 kr.
- Fólksbifreið, 6-9 manna: 1.500 kr.
- Hópferðabílar fyrir 10-19 manns: 2.200 kr.
- Hópferðabílar fyrir 20-32 manns: 5.000 kr.
- Hópferðabílar fyrir 33 manns eða fleiri: 8.500 kr.