Eyrarrósin, verðlaun fyrir framúrskarandi menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins, var afhent við hátíðlega athöfn á Siglufirði á dögunum. Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði fékk sjálfa Eyrarrósina en Gletta á Borgarfirði eystri var eitt þriggja verkefna sem fékk sérstök hvatningarverðlaun.
Hvatningarverðlaunin eru veitt verkefnum sem þykja hafa listrænan slagkraft, jákvæð áhrif á nærsamfélagið og alla burði til að festa sig í sessi. Auk Glettu voru það Tankarnir á Raufarhöfn og Afhverju ekki í Þingeyjarsveit sem hlutu verðlaun að þessu sinni.
Í Glettu, sem verið hefur til húsa í Hafnarhúsinu á Borgarfirði, hefur undanfarin ár skapast hefð fyrir sýningum á samtímalist. Borgarfjörður hefur löngum verið þekktur fyrir virkt tónlistarlíf en með sýningum Glettu hefur nýr þáttur bæst í menningarflóru svæðisins. Úr Hafnarhúsinu er ægifagurt útsýni út á fjörðinn sem tengir þannig saman náttúrufegurð svæðisins og samtímamyndlist, nýja og gamla tíma, heimafólk og gesti. Þessar aðstæður stuðla að því að virkja listamenn og listunnendur til aukinnar sköpunar og þekkingar á myndlist.
Metnaðarfull dagskrá er framundan í Glettu í sumar og verður fyrsta sýning sumarsins opnuð 20. júní. Sumardagskrá Glettu er eitt þeirra verkefna sem hlaut menningarstyrk Múlaþings í síðustu úthlutun.
Þetta er í 19. sinn sem Eyrarrósin er afhent en hún hefur þrisvar fallið í skaut verkefna úr Múlaþingi. Listahátíðin LungA hlaut hana árið 2006, Skaftfell á Seyðisfirði árið 2013 og List í ljósi árið 2019. Listahátíð í Reykjavík, Byggðastofnun og Icelandair standa að Eyrarrósinni en verndari hennar er hr. Björn Skúlason, maki forseta.