BRAS, menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi, er hafin en þessi kærkomni fylgifiskur haustsins er nú haldinn í áttunda sinn. Yfirskrift hátíðarinnar í ár er þræðir og er markmið hennar sem fyrr að gera börnum og ungmennum kleift að njóta menningar og skapa sjálf.
Austurbrú heldur utan um hátíðina í samstarfi við menningarmiðstöðvarnar þrjár á Austurlandi, sveitarfélög, skóla, stofnanir, austfirskt listafólk og List fyrir alla. Fjöldi viðburða er á dagskrá um allan fjórðung, bæði viðburðir sem fara fram í skólunum á skólatíma og viðburðir sem eru opnir almenningi en hægt er að fylgjast með dagskránni og nálgast nánari upplýsingar um einstaka viðburði á öllu Austurlandi á Facebook-síðu hátíðarinnar.
Dans Afríka
Einn stærsti viðburður BRAS í ár er heimsókn listahópsins Dans Afríka en þau munu standa fyrir trommu- og danssmiðjum á Egilsstöðum og í Fjarðabyggð sem ekkert dans- og tónlistaráhugafólk ætti að láta fram hjá sér fara.
Skaftfell á Seyðisfirði
Öllum grunnskólum á Austurlandi verður boðið að koma með nemendur í ákveðnum árgöngum í heimsókn í menningarmiðstöðina Skaftfell á Seyðisfirði þar sem þeim býðst að taka þátt í fræðsluverkefni í tengslum við sýninguna Kjarval á Austurlandi sem nú stendur þar yfir en sú sýning er hluti af stóru samstarfsverkefni um Kjarval sem staðið hefur yfir í heilt ár.
Sláturhúsið á Egilsstöðum
Í menningarmiðstöðinni Sláturhúsinu á Egilsstöðum verður boðið upp á fánavinnustofu fyrir börn og foreldra þann 27. september í tengslum við sýninguna Vatn sefur aldrei sem nú stendur yfir í húsinu. Þá verður einnig boðið upp á helgarnámskeið í leiklist fyrir 9-12 ára börn í október og brúðuleikhús- og listasmiðjur í tengslum við komandi sýningu listamannsins Linusar Lohman. Þá mun Leikhópurinn Umskiptingar heimsækja Sláturhúsið 21. september með brúðuleikritið Fóa og Fóa feykirófa en hópurinn mun einnig setja leikritið upp í Herðubreið á Seyðisfirði sama dag. Síðast en ekki síst frumsýnir Leikfélag Fljótsdalshéraðs leikritið Óvitar laugardaginn 11. október, en yfir 20 börn taka þátt í þeirri sýningu.
Bókasafn Héraðsbúa
Það verður líka nóg um að vera á Bókasafni Héraðsbúa í tengslum við BRAS. Þar verður boðið upp á ritlistasmiðju fyrir börn í 7.-10. bekk með rithöfundinum Emblu Bachmann og sögusmiðju fyrir 9-12 ára með rithöfundinum Ævari Þór Benediktssyni. Ævar Þór mun einnig leiðbeina í ritlistasmiðju fyrir 16-25 ára sem bókasafnið stendur fyrir í samstarfi við Vegahúsið. Þá mun bókasafnið standa fyrir kvöldlestri í sundi þar sem yngstu börnin geta fengið að hlýða á góða sögu á meðan þau slaka á í barnalauginni. Síðast en ekki síst mun UngRIFF standa fyrir kvikmyndasýningum fyrir yngstu kynslóðina á bókasafninu dagana 24.-26. september.
Menningarstofa Fjarðabyggðar
Menningarstofa Fjarðabyggðar stendur fyrir svokölluðum grunnbúðum Skrekks en þar er um að ræða þrjár mismunandi opnar smiðjur sem fara fram á þremur stöðum á Austurlandi: Stöðvarfirði, Egilsstöðum og Eskifirði. Í þessum smiðjum geta ungmenni lært handritsskrif, tónlist, dans, framkomu, leiklist og spuna. Smiðjurnar eru opnar ungmennum af öllu Austurlandi og eru hugsaðar sem eins konar upptaktur að hæfileikakeppni í anda Skrekks sem fyrirhugað er að halda veturinn 2026-2027. Upplýsingar um skráningu í smiðjurnar og fleira má finna hér.
Þá býður Menningarstofan skólum á Austurlandi einnig upp á textílsmiðjuna Repüp með listakonunni Evu Ísleifsdóttur í samstarfi við List fyrir alla.
Og margt fleira
Minjasafn Austurlands mun standa fyrir smiðjum í endurhönnun fata og dúkkulísugerð þar sem nýtni og endurnýting verður höfð í hávegum.
Listakonan Saga Unnsteinsdóttir býður upp á líflegar smiðjur á Djúpavogi, Egilsstöðum og víðar þar sem 6-11 ára börnum býðst að nýta gamlar kennslubækur í listsköpun og þrautir.
Þá má nefna að barnamenningu verður einnig gert hátt undir höfði á Ormsteiti sem fram fer á Egilsstöðum dagana 12.-14. september. Tónlistarfólkið Júlí Heiðar og Dísa munu koma þar fram auk þess sem hópur frá Listdansskólanum Steps á Akureyri mun skemmta yngstu börnunum í gervi Hvolpasveitarinnar. Sunnudaginn 24. september verður opið hús í Sólinni sem er frístundaheimili fyrir börn sem þurfa sértækan stuðning. Þar verða skynjun og leikur í forgrunni og áhersla lögð á yngstu börnin.
Nánari upplýsingar um viðburði er sem fyrr segir að finna á Facebook-síðu BRAS.