Dagmar Ýr Stefánsdóttir sveitarstjóri Múlaþings fór yfir helstu verkefni síðustu vikna á fundi sveitarstjórnar þann 12. nóvember síðastliðinn.
Fundir og stjórnsýsla
Sveitarstjóri fundaði ásamt fleirum með ráðherra menningar-, nýsköpunar- og háskólamála um málefni menningarmiðstöðva á Austurlandi og fjármögnun þeirra til lengri tíma litið. Vonir eru bundnar við að nýir samningar liggi fyrir á næstunni.
Annir hafa verið í tengslum við fjárhagsáætlanagerð, starfsmannamál og hafnarmál, ekki síst við áframhaldandi vinnu við að koma á breytingum varðandi innviðagjald á skemmtiferðaskip og afnám tollfrelsis á skip í hringsiglingum.
Þá hafa staðið yfir íbúafundir heimastjórna og tók sveitarstjóri þátt í slíkum fundum í Brúarási og á Seyðisfirði, auk þess að bjóða upp á opna viðtalstíma á Seyðisfirði og Borgarfirði. Áður hafði verið boðið upp á viðtalstíma á Djúpavogi.
Innri starfsemi og kynningar
Hluti starfsmanna í stjórnsýslu Múlaþings fékk kynningu á svæðisskipulagi Austurlands og sóknaráætlun landshlutans og á öðrum fundi var farið yfir áherslur fiskeldissjóðs en hafin er vinna hjá sveitarfélaginu við umsóknir næsta árs.
Þá voru haldnir stjórnenda- og starfsmannafundir í Sláturhúsinu þar sem farið var yfir lykilmál, þar á meðal uppfærslu á bókhaldskerfi sveitarfélagsins.
Sveitarstjóri fylgdist einnig með endurbótum á húsnæði Vísindagarðs á Vonarlandi á Egilsstöðum og tók þátt í umræðum um framtíð Ríkharðssafns á Djúpavogi.
Framkvæmdir og uppbygging
Framkvæmdir við snjóflóðavarnir á Seyðisfirði ganga vel og fór lokaúttekt á Öldugarði og Fjarðagarði fram í lok október.
Nýtt hús Brákar í Fellabæ verður brátt tekið í notkun, ný raðhús hafa verið tekin í notkun á Seyðisfirði og uppbygging er í gangi á Egilsstöðum. Þá styttist í að haldið verði áfram með verkefni félagsins á Djúpavogi.
Gamla ríkið á Seyðisfirði var nýverið híft yfir á nýjan grunn og húsið afhent nýjum eigendum, Úlfstöðum, sem ætla að ráðast í endurgerð þess.
Þá hefur verið undirritaður samningur um byggingu næsta áfanga við Safnahúsið á Egilsstöðum, sem markar upphaf seinni áfanga verkefnisins.
Næg eru því verkefnin, fundir og framkvæmdir í sveitarfélaginu.