Þann 23. – 30. september verður hin árlega íþróttavika Evrópu haldin í Múlaþingi og víðar. Vikan er stútfull af skemmtilegum íþróttatengdum viðburðum og öll hvött til að taka þátt. Í fyrra var þátttaka góð og skemmtu íbúar á öllum aldri sér við hina ýmsu iðju, til dæmis prjónagöngu, jóga, blak og borðtennis svo fátt eitt sé nefnt.
Dagskrá þessa árs er enn í vinnslu en Dagný Erla Ómarsdóttir deildarstjóri íþrótta- og tómstunda hvetur fólk til að hafa samband við sig ef það vill standa að einhverjum viðburði tengdum íþróttaviku Evrópu. Þau sem eru með hugmyndir eða ábendingar geta sent henni póst á netfangið dagny.erla.omarsdottir@mulathing.is.
Dagný segir íþróttavikuna alla jafna vera vel sótta, börn hafa tækifæri til þess að prófa íþróttaæfingar því íþróttafélögin hafa verið með opnar æfingar og í ár verður meðal annars skriðsundsnámskeið fyrir fullorðna, leiktími fyrir fjölskyldur í íþróttamiðstöðvunum og málstofa um íþróttamál barna og ungmenna í sveitarfélaginu. Það gefur því augaleið að það er um að gera að taka þátt og fylgjast vel með dagskránni þegar hún birtist. Dagskrána verður hægt að nálgast á miðlum Múlaþings í næstu viku.
Íþróttavika Evrópu, öðru nafni European Week of Sport er haldin á hverju ári í rúmlega 30 löndum og er markmiðið að sporna við auknu hreyfingarleysi almennings með því að kynna fyrir fólki hinar ýmsu íþróttir og almenna hreyfingu. Múlaþing er þátttakandi í framtakinu í samstarfi við ÍSÍ.