Líkt og áður óskaði Múlaþing eftir tillögum að samfélagsverkefnum í byrjun árs. Íbúar láta ekki segja sér það tvisvar þegar kemur að því að hafa bein áhrif á sitt nærumhverfi og bárust margar góðar hugmyndir, úr þeim varð þó að velja og verður farið yfir þær hugmyndir sem urðu að veruleika að þessu sinni hér að neðan.
,,Það er ótrúlega gaman að sjá hversu vel íbúar taka við óskum um hugmyndir að slíkum verkefnum og sýnir að þeim er sannarlega umhugað um nærumhverfi sitt og þá þjónustu og innviði sem í boði eru. Það er ekki öfundsvert að þurfa að velja á milli verkefna en að sama skapi virkilega skemmtilegt að sjá hugmyndir íbúa raungerast og komast í notkun.“ Sagði Dagmar Ýr Stefánsdóttir sveitarstjóri Múlaþings spurð út í samfélagsverkefnin.
Göngustígur, kastalar, rampar og fleira
Á Borgarfirði var gerður kastali og settar upp rólur á svæðinu við hoppubelginn. Hugmyndin kom frá börnum á Borgarfirði en umhverfis- og framkvæmdaráð óskaði sérstaklega eftir tillögum frá þeim. Í bréfi sem grunnskólanemendur sendu heimastjórn kom meðal annars fram að ,,Kastalar bjóða upp á ýmsa möguleika til leiks, bæði hreyfingu og ímyndunarleikja, og hvetur til samveru. Einnig henta þeir fjölbreyttum aldurshópi allt frá leikskólaaldri.“
Á Djúpavogi er fyrirhugað að ráðast í viðbætur í Íþróttamiðstöðinni en þar verður settur innrauður saunaklefi, hefðbundið sauna, kalt kar og skolsturta verkefnið er enn í undirbúningi en reiknað með að það klárist fyrir áramót. Þá verða leiktæki einnig endurnýjuð í sundlauginni. Kvenfélag Djúpavogs og Októberfest hópurinn lögðu einnig til fjármuni í verkefnið í íþróttamiðstöðinni. Enn er unnið að því að klára breytingarnar. Þá var farið í að lagfæringu á göngustígnum upp Klifið, sem tengir saman innri hverfi Djúpavogs og ytri hluta þopsins. Verkefninu er lokið og göngustígurinn nú þegar nýttur af gestum og gangandi. Samfélagsverkefnin á Djúpavogi voru því unnin fyrir þá upphæð sem sveitarfélagið veitti, með fyrrgreindum styrkjum og uppsöfnuðum hagnaði af þorrablótum undanfarinna ára.
Á Fljótsdalshéraði var ákveðið að vinna að fimm verkefnum. Í Fellabæ er unnið að því að gera almenningsgarð við Lagarbraut. Búið er að grisja og kurla megnið af því sem grisjað var. Kurlið verður svo nýtt í stígagerð á svæðinu. Þá var ákveðið að útbúa gróðurkassa á leikskólann Tjarnarland til að auðvelda ræktun í leikskólanum. Veitt var í að koma fyrir vatnslögn vegna snjóframleiðslu í Selskógi fyrir skíðagönguspor sem Egilsstaðasporið, félagsskapur um verkefnið, stendur fyrir. Verkefnið frestast þó um eitt ár vegna ýmissa ástæðna. Þá fékk frisbígolfvöllurinn í Selskógi styrk upp á 250.000 krónur en völlurinn fékk einnig styrk í fyrra. Að lokum var ákveðið að setja upp ærlsabelg við Fellaskóla og er hann klár og kominn í notkun, en ósk um ærslabelg kom frá nemendum skólans.
Á Seyðisfirði var keyptur kastali sem hentar fyrir yngstu börnin á leikskólanum Sólvöllum. Verkfnið var samvinnuverkefni en sveitarfélagið styrkti foreldrafélag leikskólans til kaups á kastalanum. Þá voru settir upp hjólarampar á leiksvæðið fyrir aftan gamla skólann enda ákall barnanna á Seyðisfirði að slíkir yrðu settir upp.


