Fara í efni

Húsanöfn á Djúpavogi komin inn í vefsjá Múlaþings

12.05.2025 Fréttir

Nýlega var húsanöfnum á Djúpavogi bætt inn sem sérstakri þekju í kortavefsjá Múlaþings. Með þessari uppfærslu gefst íbúum færi á að sjá bæði götuheiti, húsnúmer og eigið nafn hvers húss þar sem það á við. Þekjan er aðgengileg undir skipulag.

Húsanöfn eru sérstakur og rótgróinn hluti af byggðamenningu Djúpavogs. Þessi hefð nær yfir áratugi og endurspeglar tengsl íbúa við sögu staðarins, fyrri eigendur, eldri jarðir, staðhætti eða hlutverk hússins í samfélaginu. Húsanöfnin eru ekki aðeins skráð á húsin sjálf, heldur eru þau einnig notuð í daglegum samskiptum og jafnvel í póstsendingum.

Með því að birta þessi nöfn í vefsjánni er vonast til að styðja við varðveislu menningararfs og auka sýnileika þess sem gerir Djúpavog sérstakan og persónulegan í augum íbúa jafnt sem gesta.

Íbúar og aðrir sem kunna til heita eða vita um breytingar eru hvattir til að senda okkur leiðréttingar eða viðbætur, sérstaklega þar sem hús hafa enn ekki fengið formlegt nafn. Slíkar ábendingar má senda á netfangið runar.matthiasson@mulathing.is eða með athugasemd í ábendingagátt Múlaþings.

Húsanöfn á Djúpavogi komin inn í vefsjá Múlaþings
Getum við bætt efni þessarar síðu?