Fara í efni

Í lággróðrinum - Sumarsýning ARS LONGA

23.06.2025 Fréttir Djúpivogur

Sumarsýning ARS LONGA á Djúpavogi, Í lággróðrinum, verður opnuð laugardaginn 28. júní kl. 15:00. Á sýningunni sýna þrettán listamenn frá fimm löndum verk sín og í þeim er grafist fyrir um kerfin sem binda náttúru og menningu saman í gegnum rætur sem næra, sagnaminni sem liggja í loftinu og krafta sem viðhalda tilveru okkar.

ARS LONGA er alþjóðlegt samtímalistasafn á Djúpavogi sem stofnað var af myndlistarmönnunum Sigurði Guðmundssyni og Þór Vigfússyni árið 2021. Markmið safnsins er að vera leiðandi vettvangur alþjóðlegrar samtímalistar á Íslandi með framsæknu sýningarhaldi og efla um leið tengsl og samvinnu við listamenn og fagaðila á alþjóðavísu með öflugri starfsemi.

Á sýningunni Í lággróðrinum kannar listafólkið með andlegum, efnislegum og persónulegum aðferðum flókin tengslanet sem tengja okkur við landið, sameiginlegt minni og sögulega framvindu tímans. Í tilkynningu frá ARS LONGA segir að sýningin sé ekki fastmótað landsvæði heldur lifandi og marglaga vistkerfi þar sem upplifa má harm, andspyrnu, umbreytingu og skynþekkingu. „Þessi stef nálgast listafólkið frá fjölbreyttum en þó samofnum sjónarhornum. Sum vinna náið með lífrænan efnivið eða ritúöl og grundvalla listsköpun sína staðbundið, í minni og líkamlegri návist. Önnur þeirra afbyggja skynræna þröskulda og nota hið óhlutstæða eða ljóðræna til að laða fram það sem liggur falið undir tungumálinu og því sem liggur í augum uppi.“

Eftirtaldir listamenn eiga verk á sýningunni: Alanis Obomsawin (Abenaki, US/CA), Edda Karólína Ævarsdóttir (IS), Eva Ísleifs (IS), Gústav Geir Bollason (IS), Hallgerður Hallgrímsdóttir (IS), Nancy Holt (US), Ragna Róbertsdóttir (IS), Regn Evu (IS), Sigrún Hrólfsdóttir (IS), Sigurður Guðmundsson (IS), Tuija Hansen (CA), Vikram Pradhan (IN/IS) & Wiola Ujazdowska (PL/IS).

Sýningarstjórn er í höndum Becky Forsythe & Þórhildar Tinnu Sigurðardóttur.

Dagmar Ýr Stefánsdóttir, sveitarstjóri Múlaþings, mun opna sýninguna formlega og við opnunina flytja Regn Evu, Tuija Hansen og Wiola Ujazdowska gjörninga.

Sýningin stendur til 10. ágúst en hún er sett upp með stuðningi frá Múlaþingi, Myndlistarsjóði, Sóknaráætlun Austurlands og Örvari sem er sjóður á vegum menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytisins.

Nancy Holt: Furusandar / Pine Barrens, 1975, © Holt/Smithson Foundation / Licensed by Artists Rights…
Nancy Holt: Furusandar / Pine Barrens, 1975, © Holt/Smithson Foundation / Licensed by Artists Rights Society, New York. Distributed by Electronic Arts Intermix, New York
Getum við bætt efni þessarar síðu?