Íþróttavika Evrópu er haldin á hverju ári frá 23.-30. september í yfir 30 Evrópulöndum og hefur það meðal annars að markmiði að hvetja almenning til aukinnar hreyfingar og kynna fjölbreyttar leiðir til að hreyfa sig. Íþróttavikan er ætluð öllum – óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi – og lögð er sérstök áhersla á að virkja grasrótina og skapa hreyfigleði í daglegu lífi.
Múlaþing leggur metnað í að vikan verði fjölbreytt og leitar því til einstaklinga, hópa, íþrótta- og tómstundafélaga á svæðinu til að taka þátt í dagskránni með því að hafa opnar æfingar, sýnikennslu, kynningar, skemmtilegar áskoranir eða annað. Þau sem hafa hugmyndir og áhuga mega gjarnan hafa samband við Dagnýju Erlu, deildarstjóra íþrótta og tómstunda, á netfangið dagny.erla.omarsdottir@mulathing.is. Saman sköpum við kraftmikla viku.
Með von um góð viðbrögð og öfluga þátttöku!