Fara í efni

Kennarar mættu á fund sveitarstjórnar

14.02.2025 Fréttir

Rétt fyrir fund sveitarstjórnar Múlaþings þann 12. febrúar mætti fjölmennur hópur kennara á skrifstofu sveitarfélagsins og ávarpaði sveitarstjórn. Hópurinn afhenti sveitarstjórninni undirskriftalista áður en fundurinn hófst þar sem skorað var á kjörna fulltrúa að beita sér fyrir því að gengið verði frá kjarasamningum við kennara án tafar. Í bréfinu segir meðal annars að kröfur kennara séu skýrar og snúa fyrst og fremst að því að staðið verði við loforð stjórnvalda um jöfnun launa á milli markaða.

Líkt og fram kom í skýrslu sveitarstjóra síðar á fundinum þá hafa núverandi og fráfarandi sveitarstjóri fundað reglulega með fulltrúum samningarnefndar sveitarfélaga varðandi kjaradeilu KÍ og sveitarfélaga.

,,Við bindum vonir við að á þessari deilu verði fundnar lausnir sem fyrst. Við höfum komið þeirri áherslu á framfæri að veitt verði undanþága til að þjónusta fatlaða einstaklinga á meðan á mögulegum verkfallsaðgerðum stendur“ sagði Dagmar Ýr Stefánsdóttir sveitarstjóri Múlaþings á fundinum.

Mynd: Austurfrétt/Gunnar
Mynd: Austurfrétt/Gunnar
Getum við bætt efni þessarar síðu?