Hjónin Ólöf Zophóníasdóttir og Sveinn Þór Herjólfsson láta ekki sitt eftir liggja þegar kemur að því að fegra umhverfið á Egilsstöðum en nýr sveitarstjóri rakst á þau á dögunum þar sem þau gengu um bæinn og tíndu upp rusl sem hefur fokið frá fólki og fyrirtækjum í vetur. Þegar sveitarstjórinn hrósaði þeim fyrir árveknina sögðu þau: „Við viljum leggja okkar af mörkum til að passa upp á umhverfið okkar og það er gott að hafa eitthvað að gera.“
Hjónin eru bæði hætt að vinna og segja þetta góða heilsubót, að fara út í gönguferð um bæinn og tína í leiðinni upp rusl. Þau vildu þó brýna fyrir bæjarbúum og fyrirtækjaeigendum í bænum að passa upp á að láta ekki fjúka frá sér rusl og þá hvöttu þau aðra bæjarbúa til að fara út með poka og ná ruslinu af jörðinni nú þegar frostið byrjar að fara úr henni.
Múlaþing tekur undir með þessum heiðurshjónum og minnir á að það er á ábyrgð okkar allra að halda umhverfinu okkar fallegu og hreinu.