Minjasafn Austurlands mun í vetur bjóða upp á nýjung sem miðar að því að gera safnið aðgengilegra fyrir fólk sem er að læra íslensku sem annað mál. Boðið verður upp á þematengda leiðsögn um safnið, tvisvar fyrir áramót og tvisvar eftir áramót. Fyrsta leiðsögnin verður fimmtudaginn 30. október kl. 17.00.
Leiðsögn á einfaldaðri íslensku byggist á hugmyndafræði auðskilins máls, þar sem áhersla er lögð á skýrt, hnitmiðað og myndrænt tungumál. Hún nýtist ekki aðeins fólki af erlendum uppruna heldur einnig þeim sem þurfa einfaldari framsetningu, svo sem börnum, ungmennum eða einstaklingum með lestrar- og málörðugleika. Um leiðsögnina sér Michelle L. Mielnik en áhersla er lögð á að leiðsögnin sé í höndum annarsmálshafa.
Markmið verkefnisins er að gera gestum sem eru að læra tungumálið sem annað mál kleift að njóta safnsins, fræðast um menningu og sögu og æfa íslenskuna í lifandi samhengi. Með þessu vill safnið brúa bilið milli tungumálanáms og menningarupplifunar og gera íslenska menningu aðgengilega fyrir nýbúa og aðra sem hafa takmarkað vald á málinu.
Verkefnið er liður í því að efla aðgengi að menningararfi svæðisins fyrir alla. Stefnt er að því að þróa verkefnið áfram á næstu misserum, meðal annars í samstarfi við Austurbrú, með gerð kennslu- og námsefnis sem tengir saman íslenskunám og menningarfræðslu.
Leiðsögn á einfaldaðri íslensku hlaut nýverið styrk úr Örvari, sjóði menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytisins sem ætlað er að efla skapandi hugsun og hugvit. Verkefnið hlaut einnig styrk úr samfélagssjóði Alcoa.
Nánari upplýsingar veitir Björg Björnsdóttir (bjorg@minjasafn.is), safnstjóri Minjasafns Austurlands, sími 892 8865.