Fara í efni

List í ljósi fagnar 10 ára afmæli

14.02.2025 Fréttir Seyðisfjörður

Um helgina fer listahátíðin List í ljósi fram á Seyðisfirði í tíunda sinn. Hátíðin er haldin til þess að fagna fyrstu geislum sólar eftir fjóra mánuði þar sem þeir hafa ekki náð til Seyðisfjarðar. Um er að ræða einstaka samfélagsdrifna og fjölskylduvæna listviðburði sem fara fram utandyra og er aðgangur ókeypis. Að þessu sinni verða til sýnis 26 verk en til að fagna 10 ára afmælinu verða þar á meðal verk frá fyrri árum hátíðarinna, eitt frá hverju ári.

Hátíðin verður formlega sett í Skaftfelli föstudaginn 14. febrúar kl. 17:00 þar sem sýningin Sólargleypir verður einnig opnuð. Hátíðin stendur svo yfir dagana 14. og 15. febrúar frá klukkan 18:00 til 22:00 og er sem fyrr segir aðgangur ókeypis.

Meðal þess sem verður á dagskrá hátíðarinnar í ár er að meðlimir hljómsveitarinna Animal Collective munu koma fram en þeir munu þó ekki spila undir merkjum hljómsveitarinnar heldur hver í sínu lagi með sín nýjustu verkefni. Avey Tare spilar með nýrri hljómsveit sem ber nafnið Elliicott Hooligan og Deakin spilar undir nafninu “Deakin” með Walsh Kunkel, viðburðirnir munu fara fram í Bláu kirkjunni. Geologist verður svo með hljóðverk sem verður hluti af listagöngunni um bæinn. Þá mun Abby Portner sviðslitahönnuður Animal Collective búa til sviðsmyndina og varpa framan á og innan í Bláu kirkjunni á meðan þeir spila.

Líkt og áður er slökkt á götulýsingum og íbúar hvattir til að lágmarka alla ljósmengun eins og þeir geta. Þannig njóta verkin sín best og gestir fá mest út úr hverju verki.

Íbúar og gestir Múlaþings eru hvattir til að kíkja á Seyðisfjörð og njóta þessa einstaka viðburðar.

Mynd: Carla Zimbler
Mynd: Carla Zimbler
Getum við bætt efni þessarar síðu?