Fara í efni

Ljósin tendruð á jólatrjám

27.11.2025 Fréttir Djúpivogur Egilsstaðir Seyðisfjörður

Aðventan er á næsta leiti og jólin minna á sig hvert sem litið er. Ljósum skreytt jólatré eru ómissandi þáttur í jólastemningunni og töfrum líkast þegar ljósin á þeim kvikna í skammdegisrökkrinu.

Á Egilsstöðum, Djúpavogi og Seyðisfirði koma íbúar og gestir saman til að tendra ljós á jólatrjám og heyrst hefur að jólasveinar hafi boðað komu sína á viðburðina.

Egilsstaðir

Á Egilsstöðum setur jólatréð við Nettó mikinn svip á bæinn. Ljósin á því verða tendruð laugardaginn 29. nóvember klukkan 16:00 og mun Lúðrasveit Fljótsdalshéraðs sjá um að koma viðstöddum í hátíðarskap.

Djúpivogur

Ljósin á jólatrénu á Bjargstúni verða venju samkvæmt tendruð á fyrsta sunnudegi í aðventu, 30. nóvember klukkan 17:00. Nemandi úr grunnskólanum tendrar ljósin, dansað verður í kringum jólatréð og jólasveinar líta við.

Seyðisfjörður

Á Seyðisfirði stendur jólatréð á túninu við leikskólann. Ljósin á því verða tendruð fimmtudaginn 4. desember klukkan 16:15 og fregnir herma að jólasveinarnir munu ekki láta sig vanta frekar en á hinum stöðunum.

Ljósin tendruð á jólatrjám
Getum við bætt efni þessarar síðu?