Fara í efni

Margt um að vera á Dögum myrkurs

24.10.2025 Fréttir Borgarfjörður Djúpivogur Egilsstaðir Seyðisfjörður

Yfir 30 viðburðir eru á dagskrá í Múlaþingi á Dögum myrkurs sem fram fara 27. október til 2. nóvember næstkomandi. Hátíðin er sameiginleg byggðahátíð íbúa á Austurlandi sem haldin hefur verið árlega frá árinu 2000. Hún fer fram í byrjun vetrar og er fyrst og fremst hugsuð sem hátíð íbúa þar sem hvatt er til samveru með fjölbreyttu sniði. Með samstilltu átaki einstaklinga, félagasamtaka, fyrirtækja og stofnana verður árlega til vegleg dagskrá þar sem ungir sem aldnir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

Í Múlaþingi eru yfir 30 viðburðir á dagskrá. Á Djúpavogi verður hið árlega Faðirvorahlaup, töfratréð birtist í Hálsaskógi og heiðmyrkur tekur yfir Gömlu kirkjuna svo eitthvað sé nefnt. Á Borgarfirði verður blásið til bjúgnakvölds á Blábjörgum, börn í grunnskólanum halda hrekkjavökubingó og Leikfélag Fljótsdalshérað stendur fyrir leiklestri á Galdra-Lofti í Bakkagerðiskirkju. Það gerir félagið einnig í Áskirkju í Fellum en í Geirsstaðakirkju í Hróarstungu verða hins vegar lesnar upp þjóðsögur við kertaljós.

Á Egilsstöðum mun Leikfélag Menntaskólans á Egilsstöðum standa fyrir myrkraþrautum fyrir alla fjölskylduna í Tjarnargarðinum og í Safnahúsinu verður hægt að skera út í rófur að gömlum sið. Þá verða tónleikar bæði í Sláturhúsinu og á Tehúsinu og margt fleira. Á Seyðisfirði lifna afturgöngur og draugar í Vélsmiðju Tækniminjasafnsins og ýmislegt verður til skemmtunar á bókasafninu. Þá verða tónleikar og sýning í Skaftfelli svo fátt eitt sé nefnt.

Þetta er aðeins lítið brot af þeim fjölda viðburða sem verða í boði en hægt er að sjá alla dagskrána á vef Austurbrúar.

Gleðilega daga myrkurs!

Vinningsmyndin í ljósmyndasamkeppni Daga myrkurs 2024. Ljósmyndari: Þuríður Elísa Harðardóttir.
Vinningsmyndin í ljósmyndasamkeppni Daga myrkurs 2024. Ljósmyndari: Þuríður Elísa Harðardóttir.
Getum við bætt efni þessarar síðu?