Fara í efni

Minjasafnið heimsækir leikskóla sveitarfélagsins

05.11.2025 Fréttir

Í byrjun árs fékk Minjasafn Austurlands styrk frá Safnasjóði fyrir verkefnið ,,Safnið í leikskólana“. Markmið verkefnisins er að gera aðgang að safninu og fræðslu þess jafnan fyrir börn í sveitarfélaginu, óháð búsetu.

Síðan 2016 hefur safnið staðið fyrir öflugri fræðslu fyrir börn í leikskólanum Tjarnarskógi, en þaðan hefur einn árgangur fengið að heimsækja safnið fjórum sinnum yfir veturinn og fengið fræðslu um húsakynni, matarhefðir, klæðnað og leikföng fyrri ára. Þar sem leikskólinn er steinsnar frá safninu hefur reynst auðvelt að veita börnunum þessa fræðslu.

Þar sem hinir fimm leikskólar sveitarfélagsins eru lengra frá safninu var ráðist í verkefnið ,,Safnið í leikskólana“ en með því er safnið fært nær börnunum. Leikskólarnir fá tvær heimsóknir á ári frá fræðslusérfræðingi safnsins, eina að hausti og eina að vori.

Seinni heimsóknir ársins hófust í september og snérust um matarmenningu og leikföng frá fyrri tíð. Börnin voru mjög áhugasöm, spurðu um margt og höfðu frá ýmsu að segja.

Stefnt er að því að halda þessum heimsóknum í leikskólana áfram á komandi vetrum enda gefandi fyrir bæði börn og fullorðna.

Minjasafnið heimsækir leikskóla sveitarfélagsins
Getum við bætt efni þessarar síðu?