Síðustu helgi fór lokakeppni Pangeu fram í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Pangea er stærðfræðikeppni sem 8. og 9. bekkingar úr grunnskólum víðsvegar um landið taka þátt í. Í ár var keppnin haldin í tíunda skipti og tóku alls 4689 nemendur þátt úr 67 grunnskólum.
Keppnin fer fram í þremur umferðum. Í hverri umferð fækkar þáttakendum og í lokakeppninni voru 50 nemendur úr 8. bekk og 48 nemendur úr 9.bekk eftir.
Egill Freyr Ólafsson, nemandi 9. bekkjar í Fellaskóla, komst í úrslitakeppnina en hún var sem fyrr segir haldin í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Keppnin er hörð og nota keppendur engin hjálpargögn. Í ár var Pangea svo jöfn að þrjú efstu sætin voru jöfn að stigum og því var leitað í niðurstöður fyrra prófs til að skera úr um úrslitin.
Egill Freyr stóð sig vel og er reynslunni ríkari eftir þátttökuna. Aðspurður segir hann til þess að verða svona góður í stærðfræði þurfi ,,Maður að leggja sig eins mikið fram og maður getur“ og að loknum 10. bekk langar hann að læra vélstjórn í Verkemenntaskólanum á Akureyri.
Keppnin er haldin í sjálfboðaliðastarfi af félagi Horizon og í samstarfi við stærðfræðinema við Háskóla Íslands en núna í ár hlaut hún einnig styrk frá Eflu verkfræðistofu.
,,Það var virkilega gaman að taka á móti öllum þessum öflugu krökkum. Þegar Muhammed, sem er í dag meðlimur stjórnar Horizon og einn stofnenda Pangeu á Íslandi, hafði samband við okkur árið 2015 gerðum okkur ekki í hugarlund að keppnin myndi vaxa og dafna svona vel og verða rótgróin hluti af skólastarfi á Íslandi. Til marks um hvað Pangea nær til margra þá var gaman að hitta nemendur til að mynda frá Akureyri, Njarðvík, Múlaþingi, Skagafirði, Öxarfirði og fleiri stöðum sem voru á meðal þátttakenda í dag." sögðu Gunnar Arthúr Helgason og Sölvi Rögnvaldsson, skipuleggjendur og stofnendur Pangeu og fyrrum stærðfræði og eðlisfræðinemendur við HÍ.
Fyrir áhugasama er hægt að lesa sér frekar til um keppnina á heimasíðu Pangea.