Fara í efni

Nýting og umhverfisvitund í leikskólum Múlaþings

16.04.2024 Fréttir

Nýtni og umhverfisvitund á sér margar birtingarmyndir og það er mikilvægt að vera sífellt opin fyrir tækifærum til þess að bæta sig í þeim efnum.

Leikskólar Múlaþings hafa verið duglegir við að leita leiða til þess að taka græn skref og kenna nemendum sínum aðferðir til þess að huga að umhverfi sínu.

Liður í þessu er að minnka notkun plasts og þar spilar pokanotkun stóra rullu. Þegar svo ber undir að börnin verði blaut eða fatnaður þeirra verður skítugur þarf að skipta um föt og hér áður fyrr voru fötin sem var farið úr sett í plastpoka og send heim.

Árið 2011 breyttist þetta í leikskólanum Bjarkartúni á Djúpavogi en þá varð skólinn grænfánaskóli og fór að nota taupoka. Í fyrstu voru notaðir númeraðir, hvítir taupokar og átti hvert barn sitt númer. Foreldrar fengu blaut föt send heim í þeim og komu með ný aukaföt til baka í sama poka daginn eftir. Síðan þá hafa pokarnir þróast og breyst, en um tíma voru þeir gerðir úr nærbolum sem voru saumaðir saman að neðan. Þá voru nýjustu pokarnir gjöf frá Jónínu Guðmundsdóttur, ömmu eins barns leikskólans, en hún tók sig til og saumaði poka og eru þeir nú merktir á sama hátt og áður.

Í desember 2019 saumaði og gaf Soroptimistaklúbbur Austurland leikskólunum á Seyðisfirði, Borgarfirði og á Egilsstöðum á fjórða hundrað taupoka að gjöf. Pokarnir voru gerðir úr kvennahlaupsbolum sem félagið fékk að gjöf frá Sjóvá og stóð til að henda. Þannig fengu bolirnir nýtt hlutverk og leystu plastpokana af hólmi um leið.

Í Hádegishöfða í Fellabæ hafa taupokar verið notaðir lengi og segir Guðmunda Vala Jónasdóttir leikskólastjóri að ,,fyrstu taupokarnir voru saumaðir upp úr bolum sem börnin komu með að heiman, síðan vorum við með poka sem góðhjörtuð kona tengd skólanum saumaði úr efni sem við höfðum fengið gefins, Soroptimistaklubbur Austurlands gaf eitt sinn leikskólunum poka og svo höfum við líka verið að nota poka sem HEF gaf okkur sem voru afgangspokar frá Urriðavatnssundi eitt árið.“

Það er því ljóst að plastpokanotkun er í algjöru lágmarki í leikskólum sveitarfélagsins og útsjónasemi og nýtni í hávegum höfð til að svo megi vera.

Leikskólastjórar skólanna höfðu þó á orði að heldur hefði grynnkað í pokasafni skólanna og því væri vel þegið ef foreldrar og aðrir umönnunaraðilar væru vakandi fyrir því hvort þeir lumuðu kannski á pokum og kæmu þeim þá aftur í leikskólana svo hægt sé að nota þá til fullnustu.

 

Nýting og umhverfisvitund í leikskólum Múlaþings
Getum við bætt efni þessarar síðu?