Fara í efni

Ökumenn brýndir til að sýna aðgát

06.03.2025 Fréttir Egilsstaðir

Föstudaginn 28. febrúar lá nærri að alvarlegt slys yrði í Skógarlöndum þegar börn voru að fara út úr strætó við stoppistöðina Kelduskógamegin. Barn hljóp fram fyrir vagninn og á bifreið sem ekið var fram hjá vagninum í sömu andrá. Engu mátti muna að barnið lenti framan á bílnum en meiðsl urðu sem betur fer minniháttar og slapp barnið með mar og skrámur.

Þetta er því miður ekki fyrsta tilfellið á Héraði þar sem ökumenn fara fram úr strætisvagni sem hleypir farþegum inn eða út úr vagninum. Vagnstjórar Sæti ehf. segja að það sé of algengt að tekið sé fram úr vagninum þegar stoppað er fyrir farþegum.

Múlaþing skorar á ökumenn að taka ekki fram úr strætisvagninum á meðan hann hleypir farþegum inn og út, það er einfaldasta leiðin til að koma í veg fyrir slys. Vagninn stöðvar venjulega í innan við hálfa mínútu og því er ekki þörf á að aka fram hjá honum á meðan.

Um leið hvetur Múlaþing foreldra til að ræða við börn sín um að bíða eftir að vagninn hafi ekið í burtu áður en gengið er yfir götu.

Ökumenn brýndir til að sýna aðgát
Getum við bætt efni þessarar síðu?