Það verður nóg um að vera á Héraði um helgina þegar hið árlega Ormsteiti fer fram. Hátíðin var fyrst haldin árið 1993 og hefur verið haldin árlega í einhverri mynd síðan.
Í ár fer meginhluti hátíðarhaldanna fram á Egilsstöðum og í Fellabæ en viðburðirnir teygja sig þó víðar um Fljótsdalshérað. Snædís Snorradóttir heldur utan um hátíðina í ár og hún segir að á dagskránni verði bæði fastir liðir og nýjungar: „Við hefjum leika á fimmtudagskvöldið með sundbíói í sundlauginni á Egilsstöðum og síðan rekur hver viðburðurinn annan. Á föstudaginn á Fellabærinn sviðið. Fellamenn munu bjóða upp á súpu á nokkrum stöðum í bænum, Hjólavinir sýna listir á Olísplaninu og Dúkkulísurnar taka lagið í Fjárhúsunum. Þá mun Stuðstrætóinn, með Lúðrasveit Fljótsdalshéraðs innanborðs, ganga á milli Egilsstaða og Fellabæjar.“
Á laugardaginn verður mikið um að vera á Egilsstöðum og þá verður lögð áhersla á yngstu kynslóðina að sögn Snædísar: „Dagskráin hefst með Ormahlaupi fyrir yngstu kynslóðina sem endar á svæðinu beint á móti tjaldsvæðinu. Þar verður tívolí, matarvagnar og skemmtidagskrá sem listafólkið Júlí Heiðar og Dísa munu leiða.“
Á sunnudaginn býður Orkusalan til afmælisveislu í Lagarfossvirkjun frá klukkan 11:00 til 14:00 í tilefni af 50 ára afmæli hennar. Þar verður hægt að skoða stöðvarhúsið og fræðast um starfsemina, boðið verður upp á veitingar og hoppukastala og fleiri leiki fyrir börnin.
Á sunnudaginn verður einnig opið hús í Sólinni í Fellabæ og þá verður markaður í Blómabæ bæði laugardag og sunnudag þar sem handverksfólk og fleiri aðilar selja vörur sínar.
Snædís segir gaman að sjá að þjónustuaðilar láti ekki sitt eftir liggja: „Til dæmis stendur Vök fyrir fyrsta Vök Baths hlaupinu í dag klukkan 17:00, Valaskjálf býður upp á PartýBingó fyrir eldri kynslóðina á föstudagskvöld, Hús handanna fær handverksbakarana frá Fjallagrösum á Seyðisfirði og Góðan deig á Borgarfirði í heimsókn á laugardaginn með súrdeigs- og sætabrauð og Gistihúsið verður með tilboð svo eitthvað sé nefnt.“
Ormsteiti er haldið með stuðningi Múlaþings, Alcoa Fjarðaáls og Vök baths. Allar nánari upplýsingar um viðburði má finna á Facebook.