Í þriðja skipti er óskað eftir hugmyndum að samfélagsverkefnum frá íbúum Múlaþings. Heimastjórnirnar munu meta hugmyndirnar og gera síðan tillögur að því hvað skuli framkvæma til framkvæmda- og umhverfissviðs. Sem dæmi um slík verkefni má nefna stígagerð, leiktæki, fræðslu- og upplýsingaskilti, æfingartæki og svo framvegis.
Heildarupphæð til framkvæmda fyrir þessi verkefni er 10 milljónir, sem skiptast þannig að 2 milljónir eru til framkvæmda á Borgarfirði, 2 milljónir á Djúpavogi, 2 milljónir á Seyðisfirði og 4 milljónir á Fljótsdalshéraði.
Hægt er að senda tillögur að hugmyndum í gegnum þessa vefsíðu, eða á netföng fulltrúa sveitarstjóra á Borgarfirði, á Djúpavogi, á Fljótsdalshéraði og á Seyðisfirði.
Mikilvægt er að þau sem senda hugmyndir lýsi þeim eins vel og mögulegt er. Ljósmyndir af sambærilegum verkefnum, tillaga að staðsetningu, áætlun um kostnað og aðrar viðeigandi upplýsingar til útskýringar og útfærslu á hugmyndinni er gott að senda með. Rétt er að hafa í huga að ekki er víst að hægt sé að framkvæma allar þær hugmyndir sem berast. Einnig geta hugmyndir verið útfærðar og framkvæmdar með öðrum hætti en hugmyndasmiður leggur til.
Frestur til að skila inn hugmyndum að þessum verkefnum er til 28. febrúar. Gert er ráð fyrir að heimastjórnir taki hugmyndirnar sem berast fyrir á fundi sínum í byrjun mars og munu í framhaldinu skila sínum tillögum til framkvæmda- og umhverfissviðs.
Nýlega var sett inn frétt á heimasíðu Múlaþings um þau verkefni sem urðu að veruleika síðast hana má sjá hér.