Fara í efni

Samgönguáætlun, atvinnumál og samfélagsverkefni í brennidepli hjá sveitarstjóra

19.12.2025 Fréttir

Síðustu vikur hafa verið annasamar í stjórnsýslu Múlaþings og mörg stór mál verið til umfjöllunar, eins og fram kom í skýrslu Dagmarar Ýrar Stefánsdóttur sveitarstjóra á sveitarstjórnarfundi þann 15. desember. Þar hefur kynning á tillögu að nýrri samgönguáætlun vegið þyngst, en jafnframt hefur fjölbreytt verkefnavinna átt sér stað á sviði atvinnu-, menningar- og samfélagsmála.

Tillaga að nýrri samgönguáætlun veldur miklum vonbrigðum

Kynning á tillögu að nýrri samgönguáætlun þann 3. desember reyndist mikið áfall fyrir íbúa Múlaþings og Austurlands alls. Í tillögunni kemur fram að Fjarðarheiðargöng verði ekki sett í framkvæmdaáætlun á næstunni heldur í athugunarflokk, sem þýðir að hringtenging Austurlands með göngum er ekki í sjónmáli. Þá eru aðrar mikilvægar framkvæmdir, svo sem ný Lagarfljótsbrú, settar svo langt fram í tímann að þær eru vart sjáanlegar í áætluninni.

Við nánari skoðun kom einnig í ljós að þrátt fyrir að einhverja fjármuni eigi að setja í Öxi á tímabilinu, eru stærstu fjárfestingarnar settar eftir 2030. Jafnframt er gert ráð fyrir að hafnir Múlaþings greiði hærra hlutfall í framkvæmdum á sama tíma og óvissa ríkir um tekjuhliðina vegna minni löndunar og fækkunar skemmtiferðaskipa.

Sama dag og tilkynnt var um nýja samgönguáætlun, varð alvarlegt bílslys á Fjarðarheiði þar sem einn lést sem kallaði á virkjun almannavarnarnefndar Austurlands. Þessi atburður, ofan í vonbrigði vegna samgönguáætlunarinnar, hafði djúpstæð áhrif á samfélagið. Í kjölfarið var haldin minningarstund og samverustund á vegum áfallateymis Austurlands þar sem íbúar gátu leitað stuðnings hver hjá öðrum.

Samræmd hagsmunagæsla og samtöl við stjórnvöld

Eftir kynningu samgönguáætlunar hafa fulltrúar Múlaþings staðið í ströngu við að koma sjónarmiðum sveitarfélagsins á framfæri. Sveitarfélagið hefur verið í samtölum við fjölmiðla og þingmenn og þann 9. desember fóru fulltrúar Múlaþings til fundar við þingmenn kjördæmisins. Þá voru einnig haldnir fundir með fulltrúum umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis og hluta af þingflokki Viðreisnar.

Vonir standa til þess að tillagan taki jákvæðum breytingum í meðförum þingsins og mun sveitarfélagið halda áfram að beita sér af krafti fyrir bættum samgöngum og öryggi íbúa. Í ferðinni var jafnframt þingmönnum hrósað fyrir breytingartillögur í bandormi við fjárlög sem snúa að lækkun og festingu innviðagjalds vegna skemmtiferðaskipa og frestun á afnámi tollfrelsis leiðangursskipa. Þetta eru mikilvæg hagsmunamál fyrir hafnir Múlaþings og ferðaþjónustuaðila á svæðinu og stuðla að auknum fyrirsjáanleika fyrir atvinnugreinina.

Atvinnuástand á Seyðisfirði og framtíðarsýn í mótun

Atvinnuástand á Seyðisfirði hefur einnig verið ofarlega á baugi eftir að tilkynnt var um lokun bræðslu Síldarvinnslunnar sem hættir þar með allri sinni starfsemi þar. Í ljósi þeirra tíðinda stóðu íbúar fyrir íbúaþingi þar sem fjölmargar hugmyndir um framtíð atvinnulífsins komu fram. Sveitarfélagið vinnur nú áfram með þær hugmyndir í samstarfi við ráðgjafa sem Síldarvinnslan hefur ráðið til starfa og hugmyndir sem starfshópur á vegum sveitarfélagsins var búinn að setja fram.

Sveitarstjóri, ásamt fulltrúum byggðaráðs og forseta sveitarstjórnar, fundaði jafnframt með forsætisráðherra um stöðuna á Seyðisfirði þar sem óskað var eftir stuðningi ríkisyfirvalda. Eins var þar rætt um mikilvægi Fjarðarheiðarganga fyrir bæjarfélagið og framtíð þess. Þrátt fyrir að skilaboðin hafi ekki skilað tilætluðum árangri að þessu sinni, mun sveitarfélagið halda áfram að leita leiða til samstarfs við yfirvöld og sérfræðinga forsætisráðuneytisins um eflingu byggðar á Seyðisfirði.

Öflugt samfélags- og menningarstarf á Austurlandi

Samhliða þessum stóru málum hefur verið lífleg starfsemi á sviði samfélags- og menningarmála. Í nóvember og desember fóru fram fjölmargir viðburðir, þar á meðal Matarmót Austurlands og Connected by food sem Dagmar sveitarstjóri var viðstödd í Sláturhúsinu. Hún var einnig viðstödd opnun vetrarsýningar Sláturhússins sem nefnist Mjúkar mælingar eftir Selmu Hreggviðsdóttur og verður opin fram í febrúar.

Þá fór hinn sívinsæli jólamarkaður Jólakötturinn fram um síðustu helgi. Á markaðnum gafst íbúum tækifæri til samtals við sveitarstjóra og kjörna fulltrúa á Sveitarstjórnarbekknum og komu fram fjölmargar ábendingar sem unnið verður áfram með.

Þann 1. desember var svæðisbundið Farsældarráð Austurlands formlega stofnað með þátttöku fulltrúa allra sveitarfélaga á Austurlandi, skóla, heilbrigðis- og velferðarþjónustu, öryggisþjónustu, íþróttahreyfinga, foreldra og ungmenna. Markmið ráðsins er að samhæfa þjónustu við börn og fjölskyldur í samræmi við lög og móta fjögurra ára aðgerðaáætlun sem nær til allra lykilþátta farsældar.

Þann 11. desember var úthlutað úr Uppbyggingarsjóði Austurlands, alls 59,3 milljónum króna til 57 verkefna. Við þetta tilefni var undirritaður fjögurra ára samningur við menningar- og nýsköpunarráðherra um eflingu menningarmiðstöðva á Austurlandi, sem styrkir stoðir menningarlífsins og eykur fyrirsjáanleika í rekstri.

Hátíðarnar fram undan

Fram undan eru blessuð jólin og hvatti sveitarstjóri íbúa Múlaþings til að gefa sér tíma til að njóta samveru og hvíldar yfir hátíðarnar. Anda rólega nú þegar jólin nálgast, njóta þess sem er og gefa sjálfum sér smá frið inn á milli framkvæmda og jólaundirbúnings.

Sveitarstjóri með Bjössa brunabangsa sem var meðal gesta á Jólakettinum
Sveitarstjóri með Bjössa brunabangsa sem var meðal gesta á Jólakettinum
Getum við bætt efni þessarar síðu?