Þann 1. september 2025 tekur gildi ný og samræmd gjaldskrá í sundlaugum og íþróttamiðstöðvum Múlaþings. Þá geta íbúar keypt kort sem gilda jafnt í allar sundlaugar og líkamsræktarstöðvar sem sveitarfélagið rekur, hvort sem það er 10 skipta kort, mánaðarkort eða árskort.
Markmiðið með samræmingunni er að einfalda fyrirkomulagið og auðvelda fólki að nýta aðstöðu í fleiri en einni íþróttamiðstöð, meðal annars þeim sem stunda nám eða vinnu utan síns heimakjarna. Með þessu er Múlaþing einnig að fylgja fordæmi annarra sameinaðra sveitarfélaga sem hafa innleitt sambærilega þjónustu.
Núverandi fyrirkomulag felur í sér að íbúar greiða mismunandi verð fyrir sundkort og ræktarkort eftir búsetu og kortin gilda aðeins á einum stað. Með samræmingunni verður sama verð á aðgangsmiðum og kortum og þau gilda jafnt í allar sundlaugar og líkamsræktarstöðvar sem sveitarfélagið rekur.
Eldri borgarar og öryrkjar munu fá kort og miða á 50% afslætti frá og með 1. september.
Kort sem keypt voru fyrir 1. september 2025 munu gilda áfram og verða þá jafnframt nothæf í öllum líkamsræktarstöðvum og sundlaugum sveitarfélagsins eftir þann tíma.
Við breytingar af þessu tagi koma oft upp ýmsar vangaveltur. Þeim sem hafa spurningar er bent á ábendingagátt sveitarfélagsins á mulathing.is en einnig er hægt að hringja í síma 4700 700 eða hafa samband við deildarstjóra íþrótta og tómstunda á netfangið dagny.erla.omarsdottir@mulathing.is.
