Nú eru börn og fullorðin mörg hver farin að tínast í langþráð páskafrí. Íbúar og gestir sveitarfélagsins eru hvött til að þess að nýta næstu daga til samveru og notalegheita.
Það er ýmislegt um að vera á Austurlandi um páskana og ekki úr vegi að skoða til dæmis viðburðardagatal sveitarfélagsins þegar verið er að skipuleggja fríið.
Til að mynda verður hægt að skella sér á skíði, ef veður leyfir, og verða til sölu sérstakir fjölskyldupassar sem gilda á bæði skíðasvæðin á Austurlandi sem og í sundlaugar Múlaþings og Fjarðabyggðar.
Fram að páskum er hægt að heimsækja Minjasafn Austurlands og fara í skemmtilegan leik um málshætti.
Fimmtudaginn 17. apríl klukkan 10:00 verður listamannaspjall með Gregory Thomas gestalistamanni Skaftfells í Herðubreið. Hann mun ræða um sýninguna sína sem nefnist Everyone I ever loved og er til sýnis í gallerýi Herðubreiðar.
Viðburðarhaldarar, kirkjurnar og aðrir eru einnig með ýmislegt skemmtilegt í boði og er fólk hvatt til að fylgjast með á samfélagsmiðlum og annars staðar þar sem nálgast má slíkar upplýsingar.