Dagana 8. – 14. ágúst síðastliðinn voru grunnskólakennarar í óðaönn að undirbúa sig fyrir komandi vetur. Það gerðu þeir meðal annars með því að taka þátt í endurmennturnardögum og með því að sitja ýmiskonar fróðleg og nytsamleg námskeið. Dagskrána sóttu jafnt kennarar úr Múlaþingi, Fjarðabyggð og Vopnafirði en um það bil 180 manns tóku þátt í henni.
Sum námskeiðanna voru í boði í gegnum fjarfundarbúnað á meðan önnur var hægt að sitja í raunheimum og var þeim dreift á milli kjarna en þau voru haldin á Egilsstöðum, í Neskaupsstað og á Fáskrúðsfirði.
Námskeiðin voru bæði til þess að styrkja daglegt starf skólans og til þess bæta í verkfærakistu kennara þegar kemur að áskorunum. Námskeiðin sem voru í boði voru eftirfarandi:
- Hvað ef við setjum fókusinn á styrkleikana?
- Foreldrasamskipti og bekkjarstjórnun
- Pals
- Skólaforðun; Hagnýt verkfæri í daglegu starfi
- Leikir og lausnir, málstofur um tækni
- Fab Lab námskeið – Laserskerinn og möguleikar hans
- Teacch námskeið
- Grunnnámskeið um einhverfurófið
Utan um námskeiðin hélt fagfólk á sínu sviði og leiddi þátttakendur í gegnum efnið og hvatti til umræðu og virkni.
Það leikur ekki nokkur vafi á því að börnin í sveitarfélaginu, forráðamenn, sem og starfsfólk skólanna munu njóta góðs af þessu metnaðarfulla endurmenntunarstarfi og þeim áhuga sem kennararnir í Múlaþingi sýna slíkum viðburðum.