Fara í efni

Sláturhúsið hlýtur veglegan styrk úr sviðslistasjóði

23.01.2026 Fréttir

Sláturhúsið Menningarmiðstöð hlaut næsthæsta styrkinn úr Sviðslistasjóði sem úthlutað var úr í gær, eða 16,7 milljónir króna. Styrkurinn er til uppsetningar á nýju frumsömdu fjölskylduleikriti í samstarfi við atvinnuleikhópinn Undur og stórmerki.

Skírskotun í Egils sögu Skallagrímssonar

Verkið ber vinnutitilinn „Vinir Egils“ og er skrifað af Karli Ágústi Úlfssyni fyrir Sláturhúsið. Þetta er fjölskyldusöngleikur og fantasía, sem sækir efni að hluta í Egils sögu Skallagrímssonar, en fjallar þó aðallega um tvenna tíma sem mætast og rekast á, nútíma okkar og landnámsöldina. Leikritið er spennusaga um tvo krakka sem óvart setja Egils sögu Skallagrímssonar á hvolf og snarbreyta sögunni, en það hefur einnig áhrif á veruleika þeirra í nútímanum. Leikstjóri er Ágústa Skúladóttir, leikmynd hannar Þórunn María Jónsdóttir, Ólafur Ágúst Stefánsson hannar lýsingu og Eyvindur Karlsson semur tónlist. Framleiðandi er Ragnhildur Ásvaldsdóttir, forstöðumaður Sláturhússins.

Þetta er ekki fyrsta leikritið sem Sláturhúsið framleiðir og er samið sérstaklega fyrir það en árið 2023 var leikritið Hollvættur á heiði eftir Þór Tulinius sett upp í húsinu með sama listræna teymi. Verkið hlaut Grímuverðlaunin sem besta barnasýning ársins.

„Þegar að við settum upp Hollvættina þá unnum við markvisst að því að sameina krafta atvinnu sviðslistafólks og áhugaleikhússfólks hér fyrir austan. Sama leið verður farin núna, reynslan var góð síðast og gaman að sjá hvernig okkar áhugaleikarar döfnuðu í uppfærslunni á Hollvættunum. Tónlistin skipar stóran sess í þessu nýja verki eins og gefur að skilja þar sem að þetta er söngleikur og við stefnum á að tónlistarfólkið verði héðan úr heimabyggð“ segir Ragnhildur.

Aðstaða í Sláturhúsinu til fyrirmyndar

Áætlað er að verkið fari á fjalirnar síðla árs 2026 og að sýningar ná fram í janúar á næsta ári. Sláturhúsið fékk eins og fyrr segir næsthæsta styrkinn sem úthlutað var úr Sviðslistasjóði að þessu sinni, alls 16,7 milljónir. Þar af eru 22 mánuðir af listamannalaunum sem að í heildina gera næstum tvö ársverk. „Uppsetning á atvinnuleiksýningu er gífurlega kostnaðarsöm, sérstaklega þegar að hlutverkin eru mörg og tónlistin flutt á sviði, enda fá allir sem koma að verkinu greitt fyrir sína vinnu hvort heldur sem er atvinnu- eða áhugafólk. Við búum hins vegar svo vel að hafa æfinga- og sýningarhúsnæði í Sláturhúsinu sem á fáa sína líka á landinu. Þannig getum við lækkað framleiðslukostnaðinn talsvert með framlagi Sláturhússins, en leiga á húsnæði og hreinlega aðgengi að því fyrir sjálfstæða atvinnuleikhópa á landinu, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu er stór liður í framleiðslukostnaði“ segir Ragnhildur.

Hæsti styrkurinn einnig með tengingu austur

Það er líka gaman að geta þess að verkefnið sem að fékk hæsta styrkinn úr Sviðslistasjóði; barnaleikhússverkið LEIK-húsið undir stjórn Aude Busson verður unnið að hluta til í Sláturhúsinu þar sem að listafólkið mun dvelja í vinnustofudvöl eða residensíu í sumar. Að því verkefni standa auk Aude þau Sigríður Sunna Reynisdóttir, Björn Kristjánsson og Embla Vigfúsdóttir.

Mynd: Karítas Guðjónsdóttir, fengið af vef Stjórnarráðsins. Frá úthlutunarathöfninni
Mynd: Karítas Guðjónsdóttir, fengið af vef Stjórnarráðsins. Frá úthlutunarathöfninni
Getum við bætt efni þessarar síðu?