Sláturhúsið, menningarmiðstöð á Egilsstöðum, leitar nú að fólki til að taka þátt í dansverkinu Dúettar. Í verkinu dansa pör skipuð fötluðum og ófötluðum einstaklingum.
Dúettar er dansverk eftir Ásrúnu Magnúsdóttur sem var frumsýnt á Listahátíð í Reykjavík 2024. Þá stigu á svið ólík danspör sem tengjast persónulegum böndum og áttu það sameiginlegt að elska tónlist og dans.
Nú verða Dúettar endurgerðir með pörum sem búa á Austurlandi. Verkið verður sýnt í Sláturhúsinu vorið 2026 og fram að því verða nokkrar æfingalotur; í september, í febrúar/mars og svo fyrir frumsýninguna í apríl.
Í tilkynningu frá Sláturhúsinu kemur fram að leitað sé eftir alls konar pörum: kærustupörum, vinapörum, ættingjapörum og svo framvegis til að taka þátt í verkefninu. Öll verða pörin að vera skipuð fötluðum og ófötluðum einstaklingum. Fyrsta æfingatímabilið er 18.-21. september í Sláturhúsinu.
Verk Ásrúnar Magnúsdóttur hafa notið vinsælda og hreppt verðlaun bæði hérlendis og erlendis. Hún leggur áherslu á að útvíkka hugmyndir okkar um dans, kóreógrafíu og sviðslistir.