Í ársbyrjun 2024 veitti Mennta- og barnamálaráðuneytið fjörtíu styrkjum til nýsköpunar- og skólaþróunarverkefna á vettvangi leik-, grunn- og framhaldsskóla og frístundastarfs í tengslum við menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030.
Múlaþing hlaut slíkan styrk fyrir verkefnið Sjálfbært faglegt nám: auka gæði í kennslu í kennslustofum með myndbrotum. Verkefnið er ný nálgun fyrir kennara og stjórnendur til að móta umbótamiðað skólastarf og beita jafningjastuðningi og rannsóknum á eigið starf. Rýnt verður í gæði kennslunnar og munu kennarar í öllum grunnskólum sveitarfélagsins vinna starfendarannsókn á eigin kennsluháttum og rýna í niðurstöður með jafningja. Þeim verður svo miðlað áfram til annarra kennara innan og milli skóla. Markmiðið er að kennarar öðlist aukna hæfni og sjálfstraust í kennslu.
„Það er alveg frábært að fá svona styrk og geta eflt hið frábæra skólastarf hér í Múlaþingi enn frekar í gegnum nýsköpun og starfsþróun.“ Sagði Stefanía Malen Stefánsdóttir grunnskólafulltrúi um styrkveitinguna.
Nýlega hittust styrkþegar á uppskeruhátíð á vegum Mennta- og barnamálaráðuneytisins og Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu. Tilefnið var að fagna þeim afrakstri sem hlotist hefur af verkefnunum, efla tengslin á milli þeirra sem hafa hlotið styrk og ræða næstu skref. Miðstöð menntunar og skólaþjónustu mun hafa umsjón með vefsíðu sem heldur utan um afurðir allra verkefnanna og var hún frumsýnd við tækifærið. Vefsíðunni er ætlað að stuðla að útbreiðslu verkefnanna þannig að þau geti nýst sem flestum. Þá voru einnig sýnd fimm myndbönd frá styrkþegum úr leik-, grunn-, og framhaldsskóla sem og úr frístundastarfi, hægt er að horfa á þau í frétt Mennta- og barnamálaráðuneytisins um nýsköpunar- og skólaþróunarverkefnin.