Laugardaginn 14. júní klukkan 16:00 verður opnun á sumarsýningu Félags íslenskra samtímaljósmyndara í Sláturhúsinu menningarmiðstöð á Egilsstöðum.
Sýningin ber nafnið Hiraeth en orðið er velskt og lýsir djúpri þrá eftir heimili sem kannski aldrei var til eða sem hefur glatast og er óafturkræft.
Á sýningunni eru verk eftir 31 meðlim Félags íslenskra samtímaljósmyndara (FÍSL) og tengjast þau öll þessu þema á einn eða annan hátt. Verkin sem voru valin á sýninguna kanna hluti eins og minni, að tilheyra, fjarveru og fleira. Þessu ná ljósmyndararnir fram með landslagi, andlitsmyndum og abstrakt verkum.
Sýningarstjóri er Yael BC. Hægt er að fá nánari upplýsingar um sýninguna og þá ljósmyndara sem eiga verk á henni á Facebook viðburðinum Opnun: Sumarsýning Félags íslenskra samtímaljósmyndara og á heimasíðu Sláturhússins.
Íbúar og gestir sveitarfélagsins eru hvattir til að láta þessa frábæru sýningu ekki fram hjá sér fara.