Eins og heyra mátti í skýrslu sveitarstjóra Múlaþings á síðasta sveitarstjórnarfundi þann 15. október hefur haustið verið annasamt. Dagmar Ýr Stefánsdóttir sveitarstjóri hefur undanfarnar vikur tekið þátt í fjölmörgum fundum og ráðstefnum innanlands sem utan, þar sem margvísleg málefni sveitarfélagsins hafa verið til umræðu.
Seatrade Europe ráðstefna í Hamborg
Um miðjan september tók sveitarstjóri þátt í Seatrade Europe ráðstefnu í Hamborg í Þýskalandi, þar sem rætt var við fulltrúa skemmtiferðaskipafélaga um framtíðarsamstarf við hafnir Múlaþings. Breytingar á nýju innviðagjaldi á skipin voru þar ofarlega á baugi en fulltrúar sveitarfélagsins hafa komið á framfæri áhyggjum af áhrifum þess og afnáms tollfrelsis á leiðangursskip á atvinnulíf og ferðaþjónustu.
Hafnir Múlaþings horfa fram á 43% samdrátt í skipakomum á næstu tveimur árum ef ekkert verður að gert en þó er von til að stjórnvöld endurskoði þessar ákvarðanir eftir samtöl við þingmenn og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.
Heimsóknir innanlands og samstarf sveitarfélaga
Eftir heimkomuna frá Hamborg fór sveitarstjóri til Skagafjarðar og fundaði þar ásamt fjármálastjóra og skrifstofustjóra Múlaþings með kollegum frá Skagafirði, Borgarbyggð og Norðurþingi. Slíkir fundir eru afar mikilvægir og margt hægt að læra hvert af öðru.
Á leiðinni heim tók sveitarstjóri þátt í morgunverðarfundi Sambands íslenskra sveitarfélaga á Akureyri, sem haldinn var í tilefni af 80 ára afmæli samtakanna.
Í sömu viku fór fram haustþing SSA á Vopnafirði, þar sem samþykktar voru meðal annars skýrar ályktanir til stjórnvalda um samgöngu- og innviðamál á Austurlandi.
Vikuna þar á eftir hélt sveitarstjóri síðan til Reykjavíkur á fundi með CLIA samtökum skemmtiferðaskipa, þingmönnum og ráðuneytunum vegna innviðagjaldsins og afnáms tollfrelsis á leiðangursskip.
Ferð til Vesturlands og fjármálaráðstefna sveitarfélaga
Um mánaðamótin september/október fór sveitarstjóri ásamt sviðsstjórum sveitarfélagsins í heimsókn til Akraness, Hvalfjarðarsveitar og Borgarbyggðar. Þar voru skoðaðar spennandi framkvæmdir og góð tengsl mynduð.
Þá tók við fjármálaráðstefna sveitarfélaga á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldin var á Hilton Nordica í Reykjavík. Þar kom fram margt fróðlegt, bæði í erindum og óformlegum samtölum sem oft eru ekki síður mikilvæg.
Lagareldismál í Noregi
Sveitarstjóri kom nýverið heim úr nokkurra daga ferð til Noregs á vegum Sambands sjávarútvegssveitarfélaga á Íslandi. Markmið ferðarinnar var að kynna sér lagareldismál í aðdraganda nýs frumvarps um lagareldi sem boðað hefur verið á vorþingi.
Hópur sveitarstjóra frá níu sveitarfélögum heimsótti meðal annars Ålesund, þar sem fundað var með bæjarstjóra, aðstoðarbæjarstjóra og framkvæmdastjóra viðskiptaráðs svæðisins. Fróðlegur fundur og mörg sömu málefnin sem glímt er við þar og við þekkjum hér hjá okkur.
Fundir og viðburðir í heimabyggð
Auk þessara fjölmörgu ferðalaga átti Dagmar sveitarstjóri fundi með þingmönnum kjördæmisins í kjördæmaviku, stjórn og framkvæmdastjórn RARIK og ýmsum hópum innan sveitarfélagsins.
Þá hefur hún tekið þátt í fjölbreyttum viðburðum, meðal annars virkniþingi fyrir eldri borgara á Egilsstöðum, BRAS menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi og opnun haustsýningar Sláturhússins á Egilsstöðum.
Dagmar var einnig viðstödd frumsýningu á leikverkinu Óvitar í uppsetningu Leikfélags Fljótsdalshéraðs sem er hin besta skemmtun fyrir alla fjölskylduna.
Fjárhagsáætlun og verkefni fram undan
Nú stendur sem hæst vinna við fjárhagsáætlanagerð sveitarfélagsins fyrir næsta ár en áætlunin verður tekin til fyrri umræðu á fundi sveitarstjórnar í nóvember.
Á döfinni eru fundur með ráðherra menningar-, nýsköpunar- og háskólamála um stöðu menningarmiðstöðva á Austurlandi, byggðaráðstefna Byggðastofnunar í Mývatnssveit og vinnufundir starfsfólks stjórnsýslunnar annars vegar og stjórnenda í Múlaþingi hins vegar.
Dagar myrkurs eru einnig fram undan með fjölmörgum viðburðum um allt Austurland, svo og viðburðir í tilefni af kvennaári 2025.
|
|
|
|
Frá haustþingi SSA á Vopnafirði |
Heimsókn sviðsstjóra og sveitarstjóra til sveitarfélaga á Vesturlandi, nýtt íþróttahús á Akranesi skoðað |
|
|
|
|
Frá lagareldisferð í Noregi |
Frá lagareldisferð í Noregi |



