Fara í efni

Sveitarstjórn fundaði á Borgarfirði eystri

01.07.2025 Fréttir

Þann 11. júní fór fram fundur sveitarstjórnar Múlaþings á Borgarfirði eystri. Í aðdraganda formlegs sveitarstjórnarfundar fundaði sveitarstjórnin með ungmennaráði Múlaþings. Þar fór ungmennaráð yfir nokkur mál sem þeim þykir mikilvægt að sveitarstjórn beiti sér í og komi í farveg í þágu ungs fólks í sveitarfélaginu.

Þar mátti meðal annars nefna að fá meiri afþreyingu fyrir ungmenni í samfélagið svo sem steypt borðtennisborð í Tjarnargarðinn, mikil áhersla var lögð á snjómokstur svo ungmenni í dreifbýli komist tímanlega í skóla og þá var fjallað um mikilvægi þess að ungmenni hefðu aðgang að sundlaugum og líkamsrækt í öllum byggðakjörnum með sama aðgangskortinu.

Ánægjulegt var að einmitt slíkt mál lá fyrir sveitarstjórnarfundinum síðar um daginn og var samþykkt svo nú geta íbúar keypt eitt kort sem gildir í sundlaugar og líkamsrækt á vegum sveitarfélagsins óháð staðsetningu. Munu þessi nýju kort taka gildi í haust.

Sveitarstjórn þakkaði ungmennaráði fyrir málefnalegan og vel skipulagðan fund og vísaði svo öllum málum sem frá þeim komu í ákveðinn farveg innan stjórnsýslunnar til frekari úrvinnslu.

Að loknum sveitarstjórnarfundi, sem fram fór í Fjarðarborg á Borgarfirði, skoðuðu sveitarstjórnarfulltrúar þær framkvæmdir sem nú standa yfir í Fjarðarborg áður en þeir fóru í heilsubótargöngu undir handleiðslu heimamannsins og sveitarstjórnarfulltrúans Helga Hlyns Ásgrímssonar.

Helgi fór með hópinn um svæði á Borgarfirði sem kallast Urðarhólar og er óhætt að mæla með þessari skemmtilegu gönguleið fyrir alla íbúa og gesti.

Fundur sveitarstjórnar með ungmennaráði Múlaþings

Framkvæmdir í Fjarðarborg skoðaðar

Heilsubótarganga í Urðarhólum

Heilsubótarganga í Urðarhólum

Myndir: Dagmar Ýr Stefánsdóttir

Sveitarstjórn fundaði á Borgarfirði eystri
Getum við bætt efni þessarar síðu?