Fara í efni

Sýningaropnun og listamannaspjall í Sláturhúsinu

15.08.2025 Fréttir

Á laugardaginn verður sýningin Vatn sefur aldrei opnuð í Sláturhúsinu á Egilsstöðum.

Sýningin samanstendur af verkum eftir tíu listamenn en sjö þeirra sköpuðu verk sín sérstaklega fyrir sýninguna og beint inn í rými Sláturhússins. Síðustu tvær vikur hafa listamennirnir því verið í Sláturhúsinu að vinna að uppsetningu og innsetningu verkanna enda þarf að huga að ýmsu í slíkri vinnu. Til að mynda skapar Margrét Blöndal verk sín út frá því rými sem hún setur upp í og þarf því að huga að áferð, lýsingu og umhverfinu öllu á meðan hún skapar og setur upp verk sín.

Listamannahópurinn er fjölbreyttur og bera verkin þess merki en á sýningunni má sjá málverk, innsetningu, textalistaverk og lesa stutt leikverk svo fátt eitt sé nefnt. Hópurinn kemur einnig víða að en hann samanstendur af fólki frá Íslandi, Danmörku, Noregi, Sviss og Þýskalandi.

Sýningarstjórinn er Savannah Gorton en hún er bandarísk/dönsk og hefur verið búsett í Danmörku síðan 2014 en kemur upprunalega frá New York. Hún hefur staðið að sýningum um allan heim og er því öllum hnútum kunnug í þeim efnum. Það er mikill heiður að hún skuli koma í Sláturhúsið og standa að svo metnaðarfullri sýningu á Austurlandi.

,,Það að stýra sýningu á Austurlandi hefur haft mikla þýðingu fyrir mig, að vinna með íslenskum og erlendum listamönnum að því að láta sýninguna verða að veruleika og tengja hana svæðinu. Það er ekki annað hægt en að verða fyrir jákvæðum áhrifum af landslaginu og fólkinu sem býr hér og forvitninni sem einkennir það, sama má segja um þann fjölda íslenskra listamanna sem ég hef notið þess að kynnast. Sérstaklega er ég þakklát fyrir stuðning listakonunnar Ráðhildar Ingadóttur sem hefur veitt mér innblástur og kynnti fyrir mér Austurland og langa tengingu þess við samtímalist á Seyðisfirði. Þá er ég einnig mjög þakklát Ragnhildi Ásvaldsdóttur, forstöðumanni Sláturhússins á Egilsstöðum, fyrir traust hennar til mín sem gestastjórnanda og óþreytandi elju í samstarfi okkar síðasta árið við undirbúning sýningarinnar. Ég vona að gestir njóti sýningarinnar og nálgunar hennar að viðfangsefni sem stundum getur verið áskorun að ræða, þar á meðal loftslagsmál og umhverfi, en sem getur líka verið ljóðrænt, fagurt og víðfeðmt í tjáningu listamannanna á sínum eigin sjónarhornum sem endurspegla djúpa íhugun.“

Sýningin verður opnuð laugardaginn 16. ágúst klukkan 16:00 og stendur yfir til 27. september. Sunnudaginn 17. ágúst kl. 14:00 verður listamannaspjall þar sem gestum gefst færi á að hlusta á listamennina tala um verkin sín, tilurð þeirra og hugmyndirnar að baki þeim.

Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni eru: Silvia Bächli, Margrét H. Blöndal, Gitte Broeng og Lasse Krog Møller, Nanna Debois Buhl, Dev Dhunsi, Eygló Harðardóttir, Ráðhildur Ingadóttir, Karin Sander, Jasper Sebastian Stürup.

Myndir: Dev Dhunsi
Myndir: Dev Dhunsi
Getum við bætt efni þessarar síðu?