Fara í efni

Þrír viðburðir á tveimur dögum

23.10.2025 Fréttir

Það er mikið um að vera í menningarlífinu í Múlaþingi þessa dagana og kristallast það heldur betur í dagskrá Sláturhússins næstu tvo daga. Á dagskrá eru þrír viðburðir, hver öðrum áhugaverðari.

Fimmtudagurinn 23. október klukkan 20.30

Gítarleikarinn Jón Hilmar Kárason ætlar að taka hús á Austfirðingum næstu daga og er mættur með splunku nýtt prógramm þar sem kassagítarinn verður í aðalhlutverki. Með Jóni verða mjög svo áhugaverðir gestir úr öllum áttum. Spjallað og spilað um tónlist, æskuna og allskonar. Tónleikarnir verða notalegir en skemmtilegir og alveg sérstaklega fyrir áhugafólk um gítarleik. Jón Hilmar mun leika nýja tónlist í bland við þekktar perlur, oft á tíðum í háskalegum útsettningum. Auk þess munu gestirnir að sjálfsögðu leika á alls oddi. Sjá meira á Facebook viðburðinum Tíu Tónleikar.

Föstudagurinn 24. október klukkan 19.30

„Sæhjarta. Sögur um umbreytingu“. Einleikur kvenna eftir Tess Rivarola í leikstjórn Gretu Clough (Handbendi Studio) ásamt sameiginlegri uppsetningu þátttakenda í söguhringjunum. Sýningin byggir á frásögnum og brúðuleikhúsi og notar keltnesk/norrænu þjóðsöguna um „Selkie-konuna“ sem myndlíkingu fyrir innflytjendakonur. Sjá meira um viðburðinn í viðburðardagatali sveitarfélagsins undir Kvennafrídagurinn 24. október: Sæhjarta "Stories of transformation".

Föstudagurinn 24. október klukkan 21.00

Jazztónleikar þar sem Andres Hourdakis spilar á gítar, Kobe Gregoir á trommur og Freysteis Gíslasonar á kontrabassa. Fara þeir í skapand ferðalag þar sem þeir túlka tónlist hvers annars á einstakan hátt. Á efnisskránni má einnig finna valin verk úr smiðju bandarískra tónskálda.

Andres Hourdakis er sænsk/grískur gítarleikari og einn af fremstu nútíma gítarleikurum Svíþjóðar. Kobe Gregoir er belgískur trommuleikari og einn af efnilegustu ungu jazztrommuleikurum Belgíu. Freysteinn Gíslason er íslenskur kontrabassaleikari sem starfar hér á landi. Sjá meira í viðburðardagatali Múlaþings Langt út / Far out XVIII.

Íbúar og gestir sveitarfélagsins eru hvattir til að nýta sér tækifærið og sækja þessa flottu viðburði á meðan tækifæri gefst. 

Þrír viðburðir á tveimur dögum
Getum við bætt efni þessarar síðu?