Fara í efni

Tólf verkefni fengu menningarstyrk úr seinni úthlutun 2025

23.10.2025 Fréttir Borgarfjörður Djúpivogur Egilsstaðir Seyðisfjörður

Byggðaráð Múlaþings úthlutaði nýverið menningarstyrkjum til 12 verkefna. Um var að ræða seinni úthlutun menningarstyrkja á árinu 2025 en fyrri og stærri úthlutun fór fram í janúar.

Alls bárust 24 umsóknir frá 23 aðilum. Rúmar tvær milljónir voru til úthlutunar að þessu sinni en sótt var um rúmlega sjö milljónir.

Umsóknirnar báru allar vitni um blómlegt menningarlíf í Múlaþingi og þann drifkraft sem þar ríkir á meðal skapandi fólks. Verkefnin sem hlutu styrk að þessu sinni voru afar fjölbreytt en á meðal þeirra voru ljóðahátíð, leiksýning, myndlistarsýning, plötuútgáfa, fyrirlestur og fleira.

Umsækjendum er hér með þakkað fyrir umsóknirnar og óskað velgengni með verkefnin.

Umsóknarferli fyrir næstu úthlutun menningarstyrkja Múlaþings verður auglýst um miðjan nóvember.

Verkefnin sem hlutu styrki að þessu sinni voru eftirfarandi:


Anna Stefanía Magnúsdóttir

Námskeið í baldýringu og knipli í Múlaþingi

Námskeið í baldýringu og knipli í Múlaþingi vorið 2026. Kenndar verða tvær fornar handverksaðferðir sem tengjast íslenskum þjóðbúningum, með það að markmiði að efla þekkingu og aðgengi að menningararfi okkar á landsbyggðinni.

Úthlutun: 60.000 kr.


Arndís Ýr Hansdóttir

Flat Earth Film Festival 2025

Óháð kvikmyndahátíð á Seyðisfirði þar sem lögð er áhersla á að sýna verk sjálfstæðra og framsækinna kvikmyndagerðarmanna. Efnistök eru fjölbreytt og sýnd eru bæði stutt vídeóverk og kvikmyndir í fullri lengd.

Úthlutun: 180.000 kr.


Bókasafn Héraðsbúa

JANE AUSTEN: Heillandi heimur, bókmenntir og aðdáendaklúbbur á Íslandi

Fyrirlestur í tilefni þess að í ár eru 250 ár frá fæðingu Jane Austen.

Úthlutun: 135.000 kr.


Hildur Bergsdóttir

Fótatak völvanna: fræðslu- og upplifunargöngur

Menningar- og upplifunargöngur þar sem þessum máttugu andans konum fortíðarinnar verða gerð skil í tali og tónum, fjallað um kraft þeirra og kynngi, helstu verkfæri og aðferðir.

Úthlutun: 200.000 kr.


Hildur Björk Þorsteinsdóttir

Bragðavalla Sauðkindin

Bragðavalla Sauðkindin er menningarviðburður á Bragðavöllum í tengslum við Daga myrkurs í lok október. Þar sameinast ljósmyndir, keramik úr leir sem safnað er á Bragðavöllum og matarmenning í hefðbundinni sviðaveislu.

Úthlutun: 200.000 kr.


Ína Berglind Guðmunsdóttir

Eitt sinn

Útgáfa á laginu „Eitt sinn“ eftir Ínu Berglindi.

Úthlutun: 100.000 kr.


Jafet Bjarkar Björnsson

Yoga Moves - Klifurfestival á Seyðisfirði 2026

Yoga Moves er einstakur yoga-, dans- og hugleiðsluviðburður með lifandi tónlist sem haldinn verður á Klifurfestival á Seyðisfirði sumarið 2026. Viðburðurinn leiðir saman íbúa og gesti hátíðarinnar í frelsandi og heilandi hreyfingu.

Úthlutun: 90.000 kr.


Katla Rut Pétursdóttir

Skáldasuð - Systrahátíðin Skáldaþing

Hátíðin Skáldasuð er ljóðahátíð sem hefur verið haldin í tvígang í Reykjanesbæ og er nú á leiðinni til Múlaþings í fyrsta sinn undir heitinu Skáldasuð - Systrahátíðin Skáldaþing. Hátíðin leggur áherslu á að færa ljóðlistina út fyrir hið hefðbundna bæði hvað varðar rými og framsetningu.

Úthlutun: 250.000 kr.


Leikfélag Fljótsdalshéraðs

Óvitar

Leikfélag Fljótsdalshéraðs setur upp Óvita eftir Guðrúnu Helgadóttur. Í verkinu leika bæði börn og fullorðnir og sýningin er fyrir alla fjölskylduna.

Úthlutun: 250.000 kr.


Linus Lohmann

Einkasýning í Sláturhúsinu í október 2025

Listamaðurinn Linus Lohmann frá Seyðisfirði sýnir ný verk á einkasýningu í Sláturhúsinu á Egilsstöðum.

Úthlutun: 210.000 kr.


Skaftfell

Skaftfell - tilurðarsaga

Listamiðstöðin Skaftfell kynnir með stolti væntanlega útgáfu bókar sem fjallar um stofnun Skaftfells og fyrstu ár, byggða á meira en áratugar rannsóknum og 14 viðtölum við lykilfólk. Bókin varpar ljósi á einstakan uppruna Skaftfells sem samfélagsdrifins listaverkefnis á Seyðisfirði og varanleg áhrif þess á íslenska menningarlandslagið.

Úthlutun: 200.000 kr.


Tækniminjasafn Austurlands

Afturgöngur í Vjelsmiðjunni

Á Dögum myrkurs á Seyðisfirði vakna til lífsins sögur og sagnir úr fortíðinni. Í dimmu og draugalegu rými Vélsmiðjunnar er aldrei að vita hvern þú getur hitt, afturgöngur eða drauga?

Úthlutun: 200.000 kr.

Meðal verkefna sem fengu styrk að þessu sinni var leiksýningin Óvitar í uppfærslu Leikfélags Fljótsd…
Meðal verkefna sem fengu styrk að þessu sinni var leiksýningin Óvitar í uppfærslu Leikfélags Fljótsdalshéraðs. Mynd: Gunnar Gunnarsson
Getum við bætt efni þessarar síðu?