Fara í efni

Umhverfisviðurkenningar Múlaþings 2025 veittar

30.12.2025 Fréttir Borgarfjörður Djúpivogur Egilsstaðir

Í ár veitti Múlaþing umhverfisviðurkenningar í fyrsta sinn frá sameiningu en þeim er ætlað að vekja athygli á fallegu, vel hirtu og snyrtilegu umhverfi íbúa, fyrirtækja og lögbýla.

Óskað var eftir tilnefningum frá íbúum í júlí og voru flokkarnir þrír talsins:

  • Snyrtilegasta lóð við íbúðarhús í þéttbýli eða dreifbýli
  • Snyrtilegasta lóð við atvinnuhúsnæði í þéttbýli eða dreifbýli
  • Snyrtilegasta lögbýlið eða sveitabýlið með hefðbundinn búskap

Þó nokkrar tilnefningar bárust en heimastjórnir fóru yfir tilnefningar hver á sínu svæði og lögðu tillögur sínar fyrir umhverfis- og framkvæmdaráð. Ráðið samþykkti að veita eftirfarandi aðilum viðurkenningar ársins 2025:

  • Réttarholt á Borgarfirði

    Bryndís Snjólfsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir snyrtilega lóð við íbúðarhús. Garðurinn við Réttarholt er afar snyrtilegur með fallegum gróðri og litlu torfhúsi. Torfhúsið er í litastíl við íbúðarhúsið sem er reisulegt og vel við haldið. Heildarmynd húsa og garðs er hin glæsilegasta.

Aðspurð segist Bryndís ekki hafa átt von á að fá umhverfisviðurkenningu sem hafi því komið skemmtilega á óvart. Hún vilji hafa snyrtilegt í kringum sig og þyki umhirðan raunar ósköp eðlileg, en játar að það sé ákveðin hvatning þegar ferðamenn stoppa til að taka myndir af garðinum sem og að fá viðurkenningu frá sveitarfélaginu.

  • Hótel Framtíð á Djúpavogi

Hjónin Þórir Stefánsson og Guðrún Anna Eðvaldsdóttir hlutu viðurkenningu fyrir snyrtilega fyrirtækjalóð. Ásýnd hótelsins er til sóma en húsum þess hefur alla tíð verið vel við haldið og öll umhirða í kringum þau til fyrirmyndar. Það á raunar við um allar eignir þeirra á Djúpavogi. Í ár lauk frágangi á hótellóðinni við sumarhúsin með bættum göngustígum og glæsilegum hlöðnum vegg.

Hjónin voru ánægð með viðurkenninguna en þau hafa alla tíð lagt áherslu á að hafa snyrtilegt í kringum reksturinn og halda eignum vel við. Það skiptir máli því góð umhirða er eftirtektarverð og veitir gestum og heimamönnum jákvæða upplifun af staðnum.

  • Kross í Fellum

Hjónin Einar Guttormsson og Harpa Rós Björgvinsdóttir hlutu viðurkenningu fyrir snyrtilegt lögbýli. Á Krossi er sauðfjárbú og er umgengni á jörðinni og aðkoma heim að bæ til fyrirmyndar. Húsum er vel við haldið og metnaður fyrir snyrtilegu umhverfi sést glöggt. Við íbúðarhúsið er fallegt gróðurhús en þaðan er víðsýnt og útsýni yfir Fellin og Hérað hið glæsilegasta. Þá jarðgera hjónin matarleifar og nýta í matjurtarækt. Sannkölluð sveitasæla.

Einar og Harpa voru hæstánægð með viðurkenninguna. Aðspurð töldu þau helsta hvatann koma frá umhverfinu sjálfu sem sé svo fallegt og mikilvægt að halda því þannig. Þeim þykir leiðinlegt að sjá slæma umgengni og óþarfa drasl í umhverfinu og leggja því mikið upp úr því að hafa snyrtilegt í kringum sig.

Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar og formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings, segir ánægjulegt að veita umhverfisviðurkenningar Múlaþings í fyrsta sinn. Þær séu mikilvægar til að vekja athygli á því sem vel er gert og efla vitund um snyrtilegt umhverfi og ásýnd þess. Það skiptir máli að huga vel að nærumhverfinu því flest viljum við búa í vistlegu samfélagi þar sem umgengni og umhirða er til fyrirmyndar.

Múlaþing óskar verðlaunahöfum innilega til hamingju og þakkar öllum sem sendu inn tilnefningar. Íbúar, fyrirtæki og landeigendur eru hvött til að halda sveitarfélaginu áfram hreinu og snyrtilegu. Jafnframt eru öll hvött til að senda inn tilnefningar á nýju ári.

Guðrún Anna Eðvaldsdóttir, Þórir Stefánsson og Justin Reyes

Jónína Brynjólfsdóttir, Harpa Rós Björgvinsdóttir og Einar Guttormsson

Þekkir þú fjöllin?

Þekkir þú fjöllin?

Jónína Brynjólfsdóttir forseti sveitarstjórnar og Bryndís Snjólfsdóttir
Jónína Brynjólfsdóttir forseti sveitarstjórnar og Bryndís Snjólfsdóttir
Getum við bætt efni þessarar síðu?