Nú er hægt að óska eftir að gera breytingar á sorpílátum við heimili í gegnum mínar síður. Þar er hægt að sækja um:
- Breytingu á ílátastærð undir blandaðan úrgang, plast og pappa og pappír.
- Breytingu á ílátafjölda. Þó aldrei minna en fjögur ílát undir fjóra úrgangsflokka nema ef heimajarðgerð hefur verið samþykkt.
- Sorpílát fyrir nýja fasteign.
- Að deila sorpílátum með öðrum heimilum innan sömu lóðar (sorpgerði).
- Tilkynna um skemmt eða týnt sorpílát.
Breytingar á fjölda eða stærð íláta hefur áhrif á sorphirðugjöld. Til dæmis er hægt að óska eftir minni tunnu undir blandaðan úrgang, sem er jafn stór og tunna undir matarleifar, og lækka kostnað. Ílát undir blandaðan úrgang bera hæsta gjaldið þar sem slíkur úrgangur endar í urðun. Minni tunna þýðir minna pláss fyrir blandaðan úrgang. Það borgar sig því að flokka betur og urða minna.
Íbúar í par- og raðhúsum sem eru innan sömu lóðar geta einnig sótt um að deila sorpílátum með því að stofna sorpgerði. Sorphirðugjöld deilast þá niður á fasteignir eftir stærð þeirra í fermetrum líkt og í fjölbýlishúsum.
Þá er jafnframt hægt að sækja um heimajarðgerð og fá að skila tunnu undir matarleifar. Forsenda þess er að umsækjandi sýni fram á að jarðgerð fari raunverulega fram. Sé umsókn samþykkt getur umsækjandi skilað inn íláti undir matarleifar til Múlaþings. Í stað tunnugjalds fyrir matarleifar verður innheimt árlegt umsýslugjald sem er 4.000 kr. samkvæmt gildandi gjaldskrá.
Umsækjandi þarf að vera eigandi þeirrar fasteignar sem sótt er um fyrir eða hafa umboð til að sækja um sé um fjölbýlishús að ræða. Áhrif breytinga á sorphirðugjöld miðast við þá dagsetningu sem sorpílátum er breytt.
Frekari upplýsingar er að finna á mínar síður en einnig er velkomið að hafa samband við verkefnastjóra umhverfismála í gegnum netfangið umhverfisfulltrui@mulathing.is eða í síma 4700732.


