Fara í efni

Unglingalandsmót UMFÍ hefst í dag – sjálfboðaliðar lykillinn að velgengni mótsins

31.07.2025 Fréttir

Í dag hefst Unglingalandsmót UMFÍ 2025 á Egilsstöðum og þá má með sanni segja að verslunarmannahelgin framundan verði íþróttaveisla í anda gilda UMFÍ sem eru gleði, traust og samvinna.

Mótið, sem UMFÍ heldur í samvinnu við Múlaþing, býður 11–18 ára ungmennum að taka þátt í fjölbreyttum íþróttagreinum og viðburðum, auk þess sem gestir og aðstandendur geta notið lífsins í fjölskylduvænu umhverfi og notið fjölbreyttrar skemmtidagskrár. Keppt verður meðal annars í frjálsum íþróttum, sundi, knattspyrnu, glímu, fjallahjólreiðum og fleiru. Afar góð skráning er á mótið eða yfir 1000 keppendur og veðurpáin er mótinu sannarlega í hag. Til þess að viðburður af þessari stærðargráðu geti farið fram hér á Egilsstöðum skiptir öllum máli að vera með öflugt og samhent fólk sem leggur sitt af mörkum til mótsins sem sjálfboðaliðar. Sveitarstjóri Múlaþings er þar ekki undanskilinn og ætlar að leggja sitt af mörkum sem sjálfboðaliði á mótinu:

„Ég er bæði í þjónustumiðstöðinni að taka á móti keppendum og afhenda mótsgögn, og svo verð ég líka sjálfboðaliði á frjálsíþróttakeppninni,“ segir Dagmar Ýr Stefánsdóttir, sveitarstjóri Múlaþings.
„Það er ótrúlega gaman að vera hluti af þessum stórviðburði hér í samfélaginu okkar.“

Sjálfboðaliðar eru ómetanlegir í framkvæmd mótsins og íbúar Múlaþings hafa sannarlega staðið sig vel í að mæta til leiks með jákvæðni, kraft og samstöðu að leiðarljósi. Það er einstakt að sjá hversu margir hafa boðið fram aðstoð sína – hvort sem er í íþróttakeppnum, við móttöku eða í undirbúningi svæðisins.

Sveitarstjóri Múlaþings vill því nota tækifærið og þakka öllum sjálfboðaliðum kærlega fyrir þeirra framlag og starfsfólki Múlaþings sem hefur verið á þönum síðustu daga við að snyrta bæinn og sinna ýmsum lagfæringum – án ykkar væri þetta mót einfaldlega ekki mögulegt.

Það er líka ljóst að bæjarbúar hafa lagt sig fram við að gera bæinn snyrtilegan, hlýlegan og gestvænan fyrir þá fjölda sem mun heimsækja okkur þessa helgi. Nú er bara að njóta!

„Það er frábært að sjá hvað samfélagið hefur sameinast um þetta verkefni – það segir manni mikið um kraftinn sem býr í fólkinu hér,“ segir Dagmar að lokum.


Um Unglingalandsmótið

Unglingalandsmót UMFÍ er opið öllum ungmennum á aldrinum 11–18 ára, óháð því hvort þau stundi skipulagðar æfingar eða ekki. Mótið snýst um þátttöku, heilbrigðan lífsstíl og félagslega samveru.
Þetta er sannkölluð fjölskylduhátíð sem hefur um árabil sameinað fólk af öllu landinu í leik og gleði.

👉 Frekari upplýsingar um mótið má finna á vef UMFÍ: umfi.is/vidburdir/unglingalandsmot/um-motid

Dagmar Ýr Stefánsdóttir, sveitarstjóri Múlaþings
Dagmar Ýr Stefánsdóttir, sveitarstjóri Múlaþings
Getum við bætt efni þessarar síðu?