Múlaþing minnir íbúa á að lokun 2G og 3G farsímaþjónustu stendur yfir á landsvísu en í tilkynningu frá Fjarskiptastofu segir að henni verði lokið fyrir árslok 2025.
Nokkuð hefur borið á kvörtunum vegna skerðingar á farsímasambandi en verði íbúar varir við slíkt er fyrsta skrefið að athuga hvort tækið styður 4G/5G. Íbúar geta leitað til síns fjarskiptafyrirtækis og fengið leiðbeiningar eftir þörfum. Leysist málið ekki eru þeir hvattir til að senda ábendingu til Fjarskiptastofu.
Útfösun 2G og 3G – upplýsingar frá Fjarskiptastofu
Í tilkynningu Fjarskiptastofu segir að þjónustan hafi þjónað mikilvægu hlutverki síðastliðna áratugi en að hún standist ekki lengur kröfur nútímans um háhraðagagnaflutning og eru 2G/3G netin því víðast hvar í heiminum að víkja fyrir nútímalegri tækni (4G og 5G). Tilgangurinn með innleiðingu þessarar nýju tækni er að bæta upplifun viðskiptavina til lengri tíma og vera í stakk búin til að takast á við áskoranir framtíðarinnar, meðal annars með auknum hraða og betri svartíma.
Hvað breytist hjá notendum?
- Símtæki og tæki sem aðeins styðja 2G/3G hætta að virka.
- Símtæki sem ekki styðja VoLTE (Voice over LTE) eða hafa ekki virkjað þá stillingu hætta að virka.
- Ýmis tæki til vöktunar, mælinga og stýringa, sem aðeins styðja 2G/3G, hætta að virka.
Þjónustusvæði: Útbreiðsla farnets á ekki að minnka við lokunina. Samkvæmt ákvæðum tíðniheimilda skulu fjarskiptafyrirtæki tryggja sambærilegt þjónustusvæði með nýrri tækni (4G/5G).
Tenglar á upplýsingar frá fjarskiptafyrirtækjum:
- Nova: https://www.nova.is/netid/bless-3g
- Síminn: https://www.siminn.is/2g-3g
- Vodafone: https://vodafone.is/vid-kvedjum-2g-og-3g
Fjarskiptastofa hefur upplýsingar um að nokkuð sé enn um tæki í notkun sem ekki styðja 4G og 5G tækni og hvetur bæði notendur og seljendur búnaðar til að undirbúa sig fyrir þessar breytingar og tryggja áframhaldandi tengingu með nútímabúnaði.
Ef þú upplifir breytingar á farnetssambandi eftir að 2G/3G sendar hafa verið teknir niður, þá er fyrsta skrefið að athuga hvort tækið þitt styður 4G/5G og hvort framleiðandi/seljandi hafi virkjað VoLTE í tækinu. Þú getur leitað til þíns fjarskiptafyrirtækis og fengið leiðbeiningar. Ef málið leysist ekki getur þú sent ábendingu til Fjarskiptastofu.
Frekari upplýsingar
Leiðbeiningar um úrræði vegna ótryggs farnetssambands til heimila og vinnustaða.
Frétt Fjarskiptastofu um útfösun 2G og 3G frá 16. október.