Fara í efni

Úr skýrslu sveitarstjóra – september 2025

23.09.2025 Fréttir

Í skýrslu sveitarstjóra sem lesin var á sveitarstjórnarfundi þann 10. september síðastliðinn var farið yfir helstu verkefni sveitarstjóra frá síðasta fundi í júní.

Fundir og samstarf

Í lok júní var fundur með Sambandi íslenskra sveitarfélaga um helstu hagsmunamál Múlaþings. Þar var óskað eftir stuðningi Sambandsins í málum sem sveitarfélagið þarf að halda að ríkisvaldinu.

Sveitarstjóri sótti vinnufund á vegum Samtaka atvinnulífsins á Reyðarfirði en fundurinn var hluti af hringferð SA til að átta sig á stöðu atvinnulífs eftir landshlutum.

Í byrjun ágúst voru nokkrir fundir í Reykjavík með forstjóra Vegagerðarinnar og ráðherrum vegna samgangna og annarra hagsmunamála sveitarfélagsins.

Góð tenging við atvinnulíf á svæðinu er mikilvæg og fundaði sveitarstjóri með nokkrum aðilum í atvinnulífinu í sumar, meðal annars forstjóra Alcoa Fjarðaáls og fleiri fyrirtækjum. Slíkum fundum verður haldið áfram á næstunni til að efla samtal milli sveitarfélags og atvinnulífsins.

Fundur var haldinn með stjórn og svæðisráði Vatnajökulsþjóðgarðs og forstjóra nýrrar Náttúruverndarstofnunar um tækifæri og áskoranir þjóðgarðsins.

Eftir íbúafund innviðaráðherra á Egilsstöðum og innviðaþing ráðuneytisins í Reykjavík í lok ágúst er komin upp óvissa varðandi forgangsröðun jarðgangaframkvæmda undir Fjarðarheiði, sem veldur vonbrigðum en sjáum hvað setur.

Starfsfólk skrifstofu Dalvíkurbyggðar heimsótti Múlaþing í lok ágúst en mikilvægt er fyrir starfsfólk stjórnsýslunnar að geta hitt kollega og borið saman bækur sínar.

Sveitarstjóri og oddvitar sveitarstjórnar áttu góðan fund nýverið með yfirstjórn Vegagerðarinnar. Það var gott samtal sem mikilvægt er að halda gangandi áfram.

Viðburðir og verkefni

Sveitarstjóri sótti þó nokkra menningarviðburði í Múlaþingi í sumar. Þar má nefna sem dæmi sýningaropnanir ARS LONGA á Djúpavogi og Elínar Elísabetar í Glettu í Hafnarhúsinu á Borgarfirði eystri, Bræðsluna á Borgarfirði, Skógardaginn mikla í Hallormsstaðaskógi, Sumarsólstöðuhátíð og Hýra halarófu á Seyðisfirði, auk 50 ára friðlýsingarafmælis Teigarhorns í Berufirði.

Unglingalandsmót UMFÍ fór fram á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina og var án efa stærsta verkefni sumarsins. Með miklum samtakamætti starfsfólks og íbúa var haldin glæsileg hátíð sem tókst afar vel og eru þakkir ítrekaðar til þeirra fjölmörgu sem lögðu hönd á plóg.

Haldið var áfram með vinnu við gerð auglýsingaefnis fyrir Múlaþing sem von bráðar fer í birtingu og verður vonandi til þess að vekja athygli fólks á sveitarfélaginu.

Þá var sveitarstjóri viðstaddur þegar fagnað var verklokum mikillar vinnu við stíga- og pallagerð við Stuðlagil norðan megin ár. Á viðburðinum var áhersla lögð á bættar samgöngur að þessum vinsælasta áfangastað Austurlands og aukna vetrarþjónustu.

Fram undan

Fjölmargir fundir og viðburðir eru fram undan, meðal annars með þingmönnum, sveitarstjórum, fulltrúum atvinnulífsins og á þingum Sambands íslenskra sveitarfélaga og SSA.

Sveitarstjóri tekur einnig þátt í BRAS barnamenningarhátíð, sameiginlegum fundi með Fjarðabyggð, ferð til Akraness og Borgarbyggðar og fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í Reykjavík svo eitthvað sé nefnt.

Sveitarstjóri ásamt Elínu Elísabetu á sýningaropnun í Glettu við titilverk sýningarinnar Sækja heim  

Sveitarstjóri ásamt Elínu Elísabetu á sýningaropnun í Glettu við titilverk sýningarinnar Sækja heim

Frá Bræðslunni

Frá Bræðslunni

Unglingalandsmót UMFÍ á Egilsstöðum

Unglingalandsmót UMFÍ á Egilsstöðum

Ljósmyndir: Dagmar Ýr Stefánsdóttir

Nýir stígar og pallar við Stuðlagil
Nýir stígar og pallar við Stuðlagil
Getum við bætt efni þessarar síðu?