Fara í efni

Viðbrögð við vá æfð í Safnahúsinu á Egilsstöðum

08.05.2025 Fréttir Egilsstaðir

Síðastliðinn þriðjudag var Safnahúsið á Egilsstöðum undirlagt af safngripum sem lágu undir skemmdum eftir mikið vatnstjón sem orðið hafði í húsinu. Hópur fólks úr menningarstofnunum á Austurlandi vann ötullega að því að bjarga því sem bjargað varð með samstilltu átaki. Þegar betur var að gáð mátti þó sjá að hér var ekki um raunverulegan atburð að ræða heldur æfingu þar sem safnafólk og fleiri æfðu viðbrögð við vá.

Minjasafn Austurlands stóð fyrir námskeiðinu í samstarfi við Félag norrænna forvarða á Íslandi og með styrk úr safnasjóði. Tilgangurinn var að kenna þátttakendum að skipuleggja og forgangsraða björgun safnkosts eftir vá, æfa verkferla og læra réttar aðferðir.

Úr Múlaþingi komu þátttakendur frá Minjasafni Austurlands, Bókasafni Héraðsbúa, Héraðsskjalasafni Austfirðinga, Tækniminjasafni Austurlands og áhaldahúsinu á Egilsstöðum en auk þeirra voru þátttakendur frá Menningarstofu Fjarðabyggðar og Skriðuklaustri í Fljótsdal.

Námskeiðið var bæði bóklegt og verklegt en í verklega hlutanum var sviðsett mikið vatnstjón þar sem bækur, skjöl, ljósmyndir, málverk og fleiri safngripir höfðu orðið vatninu að bráð. Þar gafst þátttakendum tækifæri til að upplifa slíka atburðarás í rauntíma og læra að hugsa rökrétt, halda ró sinni, forgangsraða og ganga skipulega til verka með réttum aðferðum.

Leiðbeinendur á námskeiðinu voru þær Ingibjörg Áskelsdóttir og Nathalie Jacqueminet forverðir og safnafræðingar en þær hafa báðar mikla reynslu af viðbrögðum og björgun gripa eftir vá. Ingibjörg var m.a. ein þeirra sem komu að björgun muna úr Tækniminjasafni Austurlands eftir að stóra aurskriðan féll á safnið árið 2020.

Námskeiðið heppnaðist mjög vel og voru þátttakendur sammála um að eftir það væru þeir betur í stakk búnir til að takast á við atburði sem þessa. Þá er gott til þess að vita að nú sé til staðar öflugur hópur fólks hér á svæðinu sem getur brugðist við ef hætta steðjar að safngripum.

Viðbrögð við vá æfð í Safnahúsinu á Egilsstöðum
Getum við bætt efni þessarar síðu?