Nú er klár til kynningar vinnslutillaga fyrir nýtt Aðalskipulag Múlaþings 2025-2045, sem sveitarstjórn samþykkti þann 12. mars 2025 að kynna í samræmi við 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Íbúar eru hvattir til að kynna sér skipulagið og hafa áhrif á framtíð sveitarfélagsins, taka þátt í umræðu um það og senda inn umsagnir og ábendingar. Aðalskipulag skiptir íbúa máli af mörgum ástæðum, þar sem það hefur bein áhrif á daglegt líf og framtíð samfélagsins. Hér eru nokkrar ástæður:
Mótun nærumhverfisins. Aðalskipulag ákvarðar hvernig landið er nýtt, hvort sem það er fyrir íbúðarbyggð, atvinnustarfsemi, græn svæði eða samgöngur. Það ræður því hvernig samfélagið þróast og hvaða umhverfi íbúar búa við.
Gæði búsetu. Skipulag hefur áhrif á lífsgæði íbúa, t.d. með því að tryggja nægt framboð af grænum svæðum, góðri skipulagningu gatna og almenningssamgangna, nálægð við skóla, leiksvæði og þjónustu.
Umhverfisvernd og sjálfbærni. Aðalskipulag ræður því hvernig náttúruauðlindir eru nýttar, hvaða svæði eru vernduð og hvernig samfélagið getur vaxið á sjálfbæran hátt án þess að skaða umhverfið.
Þróun atvinnulífs. Skipulag getur ýtt undir fjölbreytt atvinnutækifæri með því að tryggja rými fyrir verslun, þjónustu, iðnað og nýsköpun. Það skiptir máli fyrir íbúa sem vilja starfa í heimabyggð.
Hægt er að kynna sér málið nánar á upplýsingavef um Aðalskipulag Múlaþings 2025-2045 á heimasíðu Múlaþings. Þar er að finna frekari upplýsingar og hlekk á verkefnavef og kortasjá skipulagsins.
Tillöguna sjálfa og ýmis gögn tengd henni má nálgast í gegnum vef Skipulagsstofnunar. Umsagnir og ábendingar skulu berast í gegnum Skipulagsgátt fyrir 5. maí 2025.
Hægt er að óska eftir nánari leiðbeiningum á netfanginu skipulagsfulltrui@mulathing.is
Fundir í öllum kjörnum
Til þess að kynna þetta fyrsta heildstæða aðalskipulag Múlaþings verða haldnar kynningar í formi íbúafunda í öllum kjörnum og verður þátttakendum gefinn kostur á að ræða við skipulagsráðgjafa og kjörna fulltrúa.
Fundirnir verða sem hér segir:
- 2. apríl í Valaskjálf á Egilsstöðum klukkan 17:00 - 19:00
- 3. apríl í Fjarðarborg á Borgarfirði eystri klukkan 17:00 - 19:00
- 9. apríl í Herðubreið á Seyðisfirði klukkan 17:00 - 19:00
- 10. apríl á Hótel Framtíð á Djúpavogi klukkan 17:00 - 19:00
Þá verðu einnig hægt að nálgast rafræna kynningu á heimasíðu sveitarfélagsins.