Á fundi sveitarstjórnar Múlaþings á Borgarfirði eystra þann 11. júní síðastliðinn flutti Dagmar Ýr Stefánsdóttir sveitarstjóri að venju skýrslu um helstu verkefni sveitarstjóra mánuðinn á undan.
Heimsóknir
Sveitarstjóri heimsótti leikskólann Tjarnarskóg á Egilsstöðum sem rekinn er í tveimur húsum, annars vegar í Skógarlöndum og hins vegar Tjarnarlöndum.
Þann 21. maí var sveitarstjóra ásamt kjörnum fulltrúum og fleiri hagaðilum boðið um borð í Norrænu til að fagna því að 50 ár eru liðin síðan reglubundnar ferjusiglingar hófust á Seyðisfjörð.
Og 23. maí fóru sveitarstjóri/hafnarstjóri og starfsmenn hafna um borð í skemmtiferðaskipið Carnival Miracle sem lagðist þá að bryggju á Seyðisfirði í fyrsta skipti en við slíkt tilefni er hefð að afhenda skipstjóra skipsins heiðursplatta.
Þá tók sveitarstjóri þann 5. júní á móti félagsmálaráðherra, Ingu Sæland, ásamt nokkrum kjörnum fulltrúum og starfsfólki úr félagsþjónustunni.
Fundir
Meðal funda í hinum ýmsu stjórnum og ráðum sem sveitarstjóri á þátt í má nefna fundi með fulltrúaráði íbúðafélagsins Brákar og fundi hjá stjórn Vísindagarðs sem er félag utan um sameiginlegar eignir sveitarfélagsins og Ríkiseigna á Vonarlandi á Egilsstöðum.
Sveitarstjóri ásamt framkvæmdastjóra Austurbrúar og SSA og bæjarstjóra Fjarðabyggðar tók þátt í fundi fjárlaganefndar þar sem fjármálaáætlun var til umræðu og þar var farið yfir þau hagsmunamál sem að Austurlandi snúa.
Sveitarstjóri fór einnig fyrir atvinnuveganefnd til að fylgja eftir umsögn sveitarfélagsins er byggði á umsögn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga um veiðigjöld.
Sveitarstjóri sótti fund á vegum Samtaka orkusveitarfélaga sem haldinn var í Keflavík í lok maí þar sem fjallað var um fyrirhugaðar breytingar á lögum um orkumannvirki og að þau hætti að vera undanþegin fasteignaskatti.
Stjórnendur Byggðastofnunar sóttu Austurland heim í lok maí og hittu stjórnendur stjórnsýslu hjá sveitarfélögunum.
Nokkur tími hefur farið í að funda með sviðsstjórum stjórnsýslunnar og fjármálastjóra vegna rammaáætlunar sem er undanfari fjárhagsáætlunar sveitarfélagsins.
Tveir íbúafundir heimastjórna fóru fram á tímabilinu, annars vegar á Djúpavogi og hins vegar á Seyðisfirði og mætti sveitarstjóri á báða fundina og tók þátt í umræðum.
Og þann 5. júní stóðu Austurbrú og Eygló fyrir fróðlegu umhverfisþingi í Sláturhúsinu menningarmiðstöð á Egilsstöðum en þar var því velt upp hvernig við komum til með að byggja til framtíðar.
Annað
Þann 28. maí var starfsdagur hjá stjórnsýslu Múlaþings og voru skrifstofur sveitarfélagsins því lokaðar. Starfsfólk hittist á vinnudegi á Seyðisfirði þar sem hlýtt var á gagnleg erindi og tíminn nýttur til að þétta raðirnar.
Starfsmannamál eru ávallt fyrirferðarmikil hjá stjórnendum og hefur sveitarstjóri nú lokið við að taka starfsþróunarsamtöl við alla sviðsstjóra sveitarfélagsins og nýverið var fundur með forsvarsmönnum hafna Múlaþings, meðal annars til að fara yfir framkvæmdaáætlun og starfslýsingar.
Á döfinni eru síðan fjölmörg verkefni og engin lognmolla þótt komið sé sumar.

Heimsókn í leikskólann Tjarnarskóg á Egilsstöðum

Íbúafundur heimastjórnar á Seyðisfirði

Umhverfisþing Austurbrúar og Eyglóar í Sláturhúsinu menningarmiðstöð