Leikhópurinn Lotta heimsækir Múlaþing dagana 21. - 26. júlí og stígur á stokk með leikritið Hróa Hött á Egilsstöðum, Djúpavogi, Seyðisfirði og Borgarfirði.
Hrói Höttur er eitt vinsælasta leikverk Lottu fyrr og síðar. Nú eru liðin ellefu ár frá því að það var frumsýnt í fyrsta sinn, og því sannarlega tilefni til að dusta af því rykið – nú er það tilbúið í ferskum og breyttum búningi fyrir bæði gamla og nýja áhorfendur. Eins og Leikhópurinn Lotta er hvað þekktastur fyrir, er hér á ferðinni ævintýrakokteill þar sem sögunni um Hróa Hött er blandað saman við annað þekkt ævintýri – að þessu sinni syfjuðu prinsessuna Þyrnirós. Í bland við skemmtileg lög, fjöruga dansa, fullorðinsbrandara og góðan skammt af aulahúmor verður til fullkomin skemmtun fyrir alla aldurshópa.
Sýningarstaðir og -tímar í Múlaþingi:
-
Egilsstaðir: Mánudagurinn 21. júlí kl. 17:00 í Tjarnargarði.
-
Djúpivogur: Þriðjudagurinn 22. júlí kl. 17:00 í Neistabrekku.
-
Seyðisfjörður: Fimmtudagurinn 24. júlí kl. 17:00 á túninu við Seyðisfjarðarkirkju
-
Borgarfjörður: Laugardagurinn 26. júlí kl. 11:00 á Fótboltavelli
Sýningin er klukkutími að lengd og fer fram utandyra. Við hvetjum gesti til að klæða sig eftir veðri, koma með nesti, teppi og góðan ævintýraanda. Það er líka gott að hafa símann vel hlaðinn því eftir sýningu gefst áhorfendum kostur á að fá mynd af sér með sinni uppáhalds ævintýrapersónu.
Miðaverð er 3,900 kr. (frítt fyrir tveggja ára og yngri) og hægt er að kaupa miða á staðnum og á tix.is.
Viðskiptavinir í Stofni hjá Sjóvá fá 2 fyrir 1 af hverjum miða.
Múlaþing styrkir Leikhópinn Lottu til sýninga í sveitarfélaginu.